Gamlar færslur II - Skyndipróf (tilvistarkreppa)

Hér forðum daga, þegar undirrituð var enn lítil stelpa í grunnskólanum, þá var almenna reglan sú að þegar kom að prófum þá voru spurningarnar léttari eftir því sem tíminn var naumari. Hvaða guðdómlega speki er þá á bak við það að gefa okkur eina mannsævi til að átta okkur á lífsgátunni?

Ég var að hugsa þetta um daginn þar sem ég stóð á brún Bolafjallsins og horfði niður í algleymið, frelsið ólgaði beint fyrir neðan mig, spurði einskis og svaraði engu.

Nú er ekki svo gott að geta sér til um tímann sem maður hefur á þessari jörð. Margir vilja meina að lífsstíll geti haft þar mikið að segja - ég sef aldrei og ég borða kokteilsósu, ekki lítur það vel út. Samkvæmt annarri speki gæti ég þó hafa unnið mér inn einhverjar mínútur með hlátursköstum í gegnum tíðina - það er ekki gott að segja. Ég ætla því bara að álikta, í mikilli bjartsýni, að ég sé í hið minnsta komin á seinni hluta fyrsta þriðjungs lífs míns.

Og gott fólk, ég er ekki búin að svara einni spurningu rétt á lífsprófinu. Samt er ég búin að pæla meira í þessu en góðu hófi gegnir - kannski það sé einmitt meinið. Ég einblíni svo mikið á spurninguna að það er ekki vegur fyrir mig að sjá eitt einasta svar.

Enda hló brimið, upp í opið geðið á mér. Það góndi á þessa einmanna, glórulausu veru sem finnur sér hvorki stað eða hlutverk á leiksviði veraldar.

Þegar ég var púki ætlaði ég að bjarga heiminum. Á sex ára afmælinu mínu gaf ég alla aurana mína í hjálparstofnun kirkjunnar, þetta var ekki há upphæð en þetta voru allir peningarnir sem ég átti í heiminum. Svona hugsjónir uxu upp með mér og ég ætlaði að finna leið til að bjarga öllu og öllum. Í dag er með naumindum að ég geti bjargað sjálfri mér frá drukknun. Ég treð marvaða í gegnum lífið, ég veit ekkert hvert ég stefni eða með hverjum.

Kannski brimið ætti ekkert að vera að glotta við mér, það er sennilega ekki að ástæðulausu sem ég leita hælis hjá þessu tregafyllsta og mest einmanna fyrirbæri sem mér dettur í hug. Samkenndin ræður þar sennilega mestu um.

En briminu sameinast ég ekki, allavega ekki fyrr en ég hrekk upp af. Fram að því geng ég á voninni um að ég finni einhver svör og vonandi líka einhvern sem ég má elska - ég held að það sé nefnilega alls ekki allra að vera einir.

Er það annars ekki bara hverjum manni hollt að skella sér í smá tilvistarkreppu við og við?


Tívolítöffari

Fyrir nokkrum árum vorum við fjölskyldan á ferðalagi um Ísland, sennilega eitthvað að sýnast fyrir tengdadótturinni frá Noregi - þau eru gift núna og því lítil ástæða til að vera eitthvað að þykjast lengur. En á þessu ferðalagi var rennt við í Reykjavík til þess m.a. að kíkja í tívolí.

Þetta var upplifun sem ég gleymi seint. Eldri systkini mín fengu öll á sig nýja mynd þennan dag - þó enginn meira en Belli bróðir.

Í einhverju svona skrattatæki þar sem okkur var sveiflað fram og til baka; við sett á hvolf og okkur fleygt til og frá einhverjar salíbunur, sat ég við hlið systur minnar. Allan tímann stóð hún á öskrinu - gargaði af öllum sínum mætti á Bjössa sinn sem ekki hafði komið með okkur í tækið. Fyrir aftan mig heyrði ég aðeins óminn af Magga bróður og Salbjörgu konu hans, sem nánast héldu andlitinu (allavega svona í samanburði við aðra) en það sem yfirgnæfði allt annað og breytti allt að því lífssýn minni var gráturinn, öskrin, óhemjugangurinn sem ég heyrði frá hinum enda tækisins þar sem Belli bróðir barðist svo ómyndarlega við móðursýkina.

Ég hné út úr tækinu hjólbeinótt af hlátri.

Um helgina fékk ég tölvupóst frá bróður mínum sem minnti mig á þessa sögu og sýndi mér að hann Belli er sko hvergi nærri að mannast í þessum efnum. Myndin vakti hjá mér afar blendnar tilfinningar þar sem ég í aðra röndina hló djúpum og ljótum hlátri en upplifði svo allt að því auðmýkjandi vorkunn á móti.

Hann fór í legoland og hjálögð sönnunargögn sýna hann ásamt syni sínum, sem er eins og lítill skratti sem vill ekkert nema meiri hraða,konu sinni, sem er þessi fimmáralega þarna í efri röðinni, og vini sínum sem situr með bros sem ber vott um óttablandna vorkunn yfir þessari fáránlegu uppákomu. Það var víst svo komið að fólk var farið að flykkjast að til þess að góna á eymingjann í rauðu peysunni. Fólkið sem selur þessar myndir í tugþúsundatali í hverri viku stóð á öndinni þegar hann sótti þessa mynd - og dæmi þau hver sem vill. bellihetja

 

Mér gengur að vísu eitthvað illa að stilla myndina hér inn svo ég mæli bara með því að þið klikkið á hana.


Páskagleði

Mig rekur ekki minni til þess að  mér hafi fundist ég áður vera að koma svona vel undan vetri. Vömbin er að vísu vel þanin og rassinn að færast nær gólfinu á hverjum degi en einhvernvegin er ég samt bara kát.

Það er 18. mars – dagur heilags Patreks og heilgas Bjarna að baki, og framundan  er páskahátíðin í allri sinni dýrð.  

Ég söng alla leiðina inneftir í morgun og er enn heldur kampakát. Á morgun ætla ég að keyra suður til þess að sækja Niamh, vinkonu mína sem ætlar að vera hjá mér í rúma viku. Það gleður mig ósegjanlega að stúlkan ætli að koma og stoppa hjá mér, enda í alla staði yndislegt eintak af kvenmanni. Hún hefur nú lengi haft augastað á ungum frænda mínum og ég ber sterkar vonir til þess að eitthvað gangi eftir á þeim vettvangi um páskana svo hún komi ef til vill oftar.   

Teljist mér rétt til hef ég ekki verið hérna heima um páska síðan 2003 og iða ég alveg í skinninu að komast á Aldrei fór ég suður. 2003 páskarnir voru nú samt alveg einstaklega góðir og flæðir nú yfir mig nostalgían. Mig minnir að við Eva höfum pantað okkur 18 flöskur af rósavíni og prýtt melluholuna góðu með þeim auk ógrynnis annarra veiga.

Það sem stendur einna mest upp úr frá þeim páskum eru þó óneitanlega hestaferðirnar okkar á Þingeyri – þær voru ógleymanlegar. Fyrsta ferðin hófst að sjálfsögðu á miklum tilraunum til að hrista af sér töluvert þráláta timburmenn, svo rámar mig óljóst í margar tilraunir til þess að komast upp á hestinn en það hafðist ekki fyrr en ég fékk einhvern koll til að stíga upp á – auðmjúk var ég nú uppfrá því. Það var þó ekki það sem gerði þessa sögu ódauðlega heldur náin kynni mín við lífsháska. Eva Ólöf varð fyrir því óhappi að demba sér af baki og fékk Sigurbjörg það hlutverk á meðan að halda í tauminn á hesti Hrafnhildar sem hljóp um til að aðstoða Evu. Það verður seint af henni Sigurbjörgu minni tekið hversu glettilega klaufsk hún getur verið á köflum og þarna sannaðist það sem oft, bæði fyrr og síðar, þegar hún gerði sér lítið fyrir og snaraði mig með taumnum á hesti Hrafnhildar. Við vorum staddar í örlitlum halla, sem í minningunni vill oft verða rússíbanabrekka. Brjánsi, hesturinn sem ég sat á, vildi niður hallann en hesturinn sem var að hengja mig vildi upp. Aldrei í lífi mínu mun ég hafa upplifað aðra eins adrenalínvímu og er sannleikurinn um hvernig þetta ástand blessaðist falinn í móðu þeirrar vímu. 

Við fórum nú samt aftur á bak þessa páska. Þá með ungan mann meðferðis sem endaði á stökki, laus í hnakknum. Ég hef ekki fleiri orð um það – enda marið vonandi löngu hjaðnað nú í dag. 

Ég væri sko alveg til í að komast á hestbak þessa páska líka, svo hef ég líka augastað á ferð þar sem fólki verður boðið að dorga í gegnum ís – það væri nú ekki til þess að spilla staðalímyndinni fyrir þeirri írsku. Ég ætla samt lítið að ákveða fyrirfram, bara njóta páskanna í góðra vina hópi. Það eitt er þó víst að þessir páskar verða nú öllu penni en þeir sem ég upplifði 2003, enda er maður að þroskast svo með árunum. –Ég held allavega í vonina.


Mónusögur - I

Fyrir þá sem ekki vita það þá átti ég, til afar skamms tíma, bíl úti á Norður Írlandi. Hún hét Móna og ég elskaði hana afar heitt. Það er þó því miður oft þannig að við særum helst þá sem við elskum og samband okkar Mónu var enging undantekning þar á. Hún var mér trygg og trú og lét bjóða sér meira en nokkur bíll með sjálfvirðingu ætti að gera, ég sakna hennar enn í dag og sé eftir öllum skiptunum sem ég misbauð henni, gekk að henni vísri og misnotaði tryggð hennar.

  

Þrátt fyrir að fjölmargir þekki til uppátækja tengda Mónu ætla ég að renna yfir sum þeirra aftur og ætla í dag að rifja upp fyrsta skiptið sem við Móna komust í hann krappann saman.

  

Þannig var að loksins hafði ég kynnst öðrum nátthrafni, mér til kátínu og léttis. Einhver til að spjalla við á löngum andvökunóttum og til að grallarast eitthvað með þegar allir aðrir sváfu.



Þetta kvöld hafði svefninn látið á sér standa sem endranær og fannst mér það tilvalin hugmynd þar sem ég sat í herberginu mínu og hataðist út í Simon, sem þá leigði með mér, að skreppa á rúntinn. Að sjálfsögðu vildi Ryan (nýi nátthrafninn) fá að koma með, enda andvaka á hinni línu skilaboðaskjóðunnar. Ég held að þetta hafi verið einn af viðburðarríkustu rúntum lífs míns – fram til þessa allavega. Til að byrja með tókum við rúnt inn í Ballymoney, sem er afar áhugaverður rónabær. Þar kenndi nú ýmissa grasa; sáum við m.a. par kyssast á ákaflega ófágaðan hátt á götuhorni, þar til daman sleit kossinum og gerði sér lítið fyrir og ældi á guttann. Eins sáum við hóp bólugrafinna unglinga fljúgast á í strætóskýli og afar drukkinn klæðskipting detta ítrekað á sama búðargluggann. Mér þótti mikið til koma en var engu að síður þess fegnust þegar ég rúllaði út fyrir bæjarmörkin og aftur í átt að Coleraine.

 



Þegar aftur var komið í 'siðmenninguna' fannst Ryan tilvalið að gerast leiðsögumaður um æskuslóðir sínar og fékk ég sögu við hvert götuhorn. Við tókum sveig að gamla barnaskólanum hans þar sem við rötuðum í merkilegar ógöngur og ætluðum við aldrei að finna leiðina út af þeirri skólalóð. Við vorum nú samt ekki mikið að stressa okkur á því, allavega ekki Ryan sem stökk út og stal reiðhjóli sem hann svo hálf flaug af á meðan það sveif ofan í nálægan gám. Loksins fann ég leiðina þaðan út en verð ég að segja eins og er að við tók alls ekki sú fegursta sjón sem ég hefði getað  ímyndað mér. Úti í glugga á þriðju hæð í fjölbýlishúsi stóð maður; frekar digur, loðinn og lasaralegur - já, kannski ber að bæta því við að hann var KVIKNAKINN. Ég stoppaði bílinn um stund til að varpa öndinni og reyna að róa hláturtaugarnar sem voru vel strekktar.

 



Eftir þetta fannst mér nóg komið af herlegheitunum svo við tókum rúnt á kunnuglegar slóðir fyrir mig. Að sjálfsögðu lá leiðin niður á strönd. Undir stjörnubjörtum himni var eitthvað svo kjörið að stoppa bílinn í fjörunni. Njóta náttúrunnar og spjalla svolítið. Það kom á daginn að náttúran annað hvort vildi ekki sjá okkur þarna eða vildi hreinlega halda okkur. Þann stutta tíma sem við stöldruðum þarna við skall á háflæði og framhluti bílsins sökk á bólakaf í þennan viðbjóðslega gula sand, sem örfáum mínútum áður var meginstólpi þessa rómantíska umhverfis. Á meðan við reyndum að losa bílinn fór að sjálfsögðu að hellirigna, sem var hvorki að hjálpa til varðandi hitastig eða möguleikana á að ná bílnum upp úr forinni. En af því að þetta var víst ekki nógu slæmt og ónýtt fólk sem kann ekki að sofa á nóttunni á ekkert gott skilið þá skall á haglél á stærð við hafnarbolta. Stórkostlegt alveg!

 



Við leituðum skjóls inni í bílnum á meðan, sjálfsagt senn marin og blá eftir þessa ógeðslegu bolta. Ég fór að reyna að hugsa með mér hvað maður tæki til bragðs væri þetta snjór. Sá fyrir mér einhverskonar planka í hyllingum, sem hvergi voru þó nálægir. Holurnar sem bílinn sat í virkuðu ekki svo djúpar svo mér datt í hug að bregða á það ráð að troða skónum mínum undir framhjólin. Mér til varnar skal það tekið fram að, eins heimskulega og það hljómar, þá leit allt út fyrir að það myndi virka. Það er að segja alveg þar til stór og feit alda mætti á svæðið og skolaði skónum mínum út á hafsauga.

 



3 tímar og hvorki ráð né nokkur velgja. Ég veit ekki hvort það var taugaveiklun eða bara kæruleysið sem fylgir því að vera fullviss um glötun sína sem réði því að ég hló allan tímann. Enn var flóðið þó að hækka og útlitið orðið heldur svart. Það var ekkert í stöðunni annað en að játa sig sigraða, hringja á leigubíl og skríða inn í hann holdvot, skólaus og algjörlega auðmjúk, með þá von í brjósti að Móna mín yrði nú á vísum stað daginn eftir.

 

Ég svaf þó vært þennan morgunn, úrvinda eftir átökin.

 
 

„Já, okei bæ

Ég var að tala við ömmu mína í símann um daginn. Átti ég við hana alveg ákaflega skemmtilegt spjall, enda kellingin með einsdæmum hress og hraust til talsins, áttatíuogfimm ára gömul. Við ræddum heima og geima, sem er vel þar sem við gerum ekki nógu mikið af því að spjalla - en það er þá bara öllu skemmtilegra þegar það gerist.

Hvað okkur fór á milli var nú kannski ekkert sérstaklega áhugavert fyrir aðra en okkur - mér finnst gaman að heyra hversu hraustlega hún tjáir sig með vel völdum orðum (tjah, má maður nokkuð nota orð eins og orðljót um ömmu sína?) og henni finnst eflaust gaman að ná að draga upp úr mér fáein orð, enda var ég orðin allt of roskin þegar ég í fyrsta sinn opnaði þennan guðsvolaða skolt minn. Hitt er svo annað mál að þótt hún amma sé kannski ekki alveg með á það, þá opnaðist skolturinn svo vel að minnti um margt á stóryrtar konur í móðurlegg. En ég ætla sem sagt lítið að tíunda tal okkar hér, bara kveðjuna sem mér fannst með einsdæmum skemmtileg.

Nú er það svo að stundum fýkur í mig við að hlusta á ungdóminn okkar, eins og kannski hefur komið fram áður. Hún amma, aftur á móti, er mér greinilega sneggri þegar kemur að því að aðlagast breytingum. Þegar henni fannst ég búin að láta móðan mása nógu lengi sagði hún við mig

Jæja, Mæbet mín. Ég er að fara á ball í kvöld og þarf að fara að græja mig."

Mér fannst þetta skemmtilega orðað, og þótti raunar líka gaman að heyra að tilhlökkunin fyrir balli geti verið jafn mögnuð þegar fólk er komið á svona virðulegan aldur. Ég bað ömmu að skemmta sér og haga vel en varð það fljótt ljóst að hún mátti ekkert vera að því að láta einhvern krakkakjána leggja sér siðareglur þegar hún snaraði út úr sér

„já, okei bæ!" og lagði svo á.

Já, okei bæ! Ég átti ekki orð, sat fyrst hvumsa með tólið enn við eyrað og hló svo bara. Ég held að kannski megi ég alveg fara að slaka á í andúð minni gegn slettum - því ef 85 ára amma mín notar þær, þá er þetta ekki flókið - þær geta alveg verið töff.


Smáþjóðin Reykjavík

Löngum hef ég verið smábæjarsálin hin mesta og kunnað betur við mig sem fjærst mörkum öngþveitisins í Reykjavík - þá er vel að ég skuli búsett vestur í Bolungarvík. Það verður þó að segjast eins og er að allt frá því að ég var krakki hefur mér þótt eitthvað grand og skemmtilegt við alvöru kaupstaðarferðir; það að skreppa í borgina var aldrei neitt til að fúlsa við þótt vissulega kveinkaði sálartetrið sér ef mér varð á að ílengjast eitthvað þar.

Það voru alltaf vissir staðir sem var eiginlega best að koma á fyrir þá fullvissu að þar mætti rekast á aðra af sínu sauðahúsi - fleiri dreifara. Til dæmis rekur mig alltaf minni til litla Kaffivagnsins við höfnina þar sem bátakarlar landsins komu saman til þess að ræða málefni sem ég, þá lítil og með tíkarspena, hafði lítinn skilning á, en fylgdist þó heilluð með því þessir menn vissu allt.

Ekki ósvipaða sögu var að segja um Kringluna, þó sjaldan væri vitsmunalegum þjóðfélagsumræðum fyrir að fara. En þegar í Kringluna var komið tók á móti manni angan sjávarútgerðar og það mátti bóka nokkur stopp á hverri hæð til þess að spjalla við sveitunga sína sem maður alla jafna hefði varla heilsað heima. Þetta var svipað fyrirkomulag og með íslendinga í útlöndum - maður heilsar öllum sem tala þetta dásamlega tungumál okkar.

Að loknum merkilegum degi var svo við hæfi að skella sér á Askinn og éta lambakótelettur og súpu sem var fínasti matur og ekki of framandi. Væri ekki nægur tími til stefnu var flott að koma við á Bæjarins Bestu og fá sér eina með engu (enn ekki vaxinn upp úr þeirri hefð reyndar).

 

En víða er af sem áður var. Reykjavík er ekki bara að verða allt of stór og troðin heldur er hún líka ekkert sérstaklega íslensk lengur og eina ástæðan fyrir því að mér finnst einhvertíma gaman að henni er sú staðreynd að þar má finna óteljandi öldurhús. Annars finnst mér öngþveiti og ómennska vera að tröllríða borginni okkar og get ég ekki sagt að mér þyki mikið til koma.

T.d. var ég stödd í Kringlunni á dögunum, svo ég víki mér nú aftur þangað. Það var ekki nóg með að landbyggðarfnykurinn hafi verið leystur af hólmi með hland- og svitalykt heldur lá megn hormónaóþefur yfir staðnum þar sem nú er komin upp alveg ný kynslóð unglinga - kringluskrímslin.

Kringluskrímslin eru ungmenni höfuðborgarinnar sem hafa ekkert fyrir stafni annað en að hanga í Kringlunni og taka þar út gelgjuna með brenglaðar staðalímyndir allt í kringum sig. Stelpurnar labba um eins og hórur vegna þess að þvengmjóar og klæðalitlar gínur, með aðstoð geðilla píkustjarna úr tónlistarmyndböndum, eru þeirra fyrirmyndir. Kynvilltir stráklingar standa og spegla sig í marmaranum með þessa líka rosalegu 'Viktor-Viktoria komplexa'. Venjulegir strákar eiga ekki eins vissan stað í nútímanum eins og áður fyrr vegna þess að það er til eitthvað sem má kalla 'meterósexúal búllsjitt' (svo ég tali tungumál kringluskrímslanna) og er bara enn ein brellan til þess að grynnka mun á kynjunum. Ekki launa- eða valdamun heldur þann mun sem segir okkur hvort er hvað - og það þykir mér flökrandi þróun. Undantekningin á þessu eru ofbeldishneigðu oflátungarnir sem segja bara 'fokkíngs fokk' við öllu. Kringluskrímslin tala nefnilega ekki Íslensku, sem er ekki skrítið því Reykjavík fer að hætta að kunna hana. Þau tala eigið planmál sem er öllu ófágaðra en Esperantó eða Solresol. Það er bara samanhnoðaður viðbjóður úr hryllilegu hráefni nútímatónlistar "sucking on my titties like you wanted me"; svona stórbrotnum textum blanda þau saman við kolranga beygingu íslenskra sagna og tökuorðum héðan og þaðan. Ég fylgdist með flokki þessarar tegundar í kringlunni á dögunum og ég náði ekki nokkru samhengi. Úr þessum flokki var raunar bara ein manneskja sem ég gat eitthvað lesið og það var lítill, ofskreyttur hommi sem ég er ekkert viss um að sé í alvörunni samkynhneigður. Svo illa leið honum í eigin skinni að best gæti ég trúað því að hann væri að fela sig á bak við öfgakennda grímu sem kumpánar hans hönnuðu á hann vegna þess að venjuleg karlmennska er bara ekki í tísku meðal þeirra.

Eitt er það þó við Reykjavík sem svíður mest; eins og ég sagði áðan þá fer hún að hætta að kunna Íslensku. Núna fer ég að komast inn á þá braut sem verður til þess að fólk kallar mig stöðugt rasista - það verður þá bara að hafa það. Mér finnst ekki til of mikils mælst að í Höfuðborg íslands geti ég pantað mér mat á íslensku. Mér finnst raunar dónaskapur og vanvirðing að ráða fólk til þjónustustarfa á Íslandi sem ekki talar tungumálið og er ég að hugsa um að fara að snúa mér við og labba út í hvert sinn sem mér er boðin slík þjónusta. Reyndar með reynslu undanfarinna Reykjavíkurferða að leiðarljósi verð ég þá að telja það vissara að hafa með mér nesti ef ég ætla ekki að svelta í Óíslensku Reykjavík.


Gamlar Færslur I - Koddahjal

Á 'dýrðardögum' mínum, þegar ég hafði eitthvað að segja og nennti að blogga, fæddust stundum færslur sem fólk vitnaði í. Oftar fæddust þó færslur um fásinnu sem fólk gat svona brosað út í annað yfir. Báðar týpurnar voru þó skrefi framar en þessi leti sem einkennir allt hjá mér í dag. Við skulum bara láta sem ég sé eitthvað meira upptekin (helber lygi, að sjálfsögðu).

 

Þess vegna hef ég ákveðið að birta kannski við og við eina svona gamla góða. Sú fyrsta sem ég ætla að birta er frá því að ég var á öðru ári í Coleraine og valdi ég þessa færslu vegna þess að engin önnur en mamma mín fór eitthvað að nefna hana fyrir skemmstu.

 

Aðgát skal þó höfð hér þar sem hún er kannski ekki alveg í penni kantinum.

 

Koddahjal

 

Koddahjal er efni sem mér hefur löngum verið hulin ráðgáta. Ég hef, satt að segja, mjög oft velt því fyrir mér um hvað fólk talar eiginlega þegar það liggur saman í koju að afloknum leikum. Í gegnum tíðina hefur lítið reynt á þetta hjá mér, hefur það þá helst verið vandræðaleg þögn eða það sem oftast gerist - ég þykist vera sofandi þar til ég heyri hrotur til þess að ég þori að læðast á brott út í nóttina. Ég hef eiginlega oft óttast þetta fyrirbæri og verið hrædd um að þegar ég færi að liggja á koddanum með sama aðilanum trekk í trekk (þá meina ég einhverjum öðrum en Evu Ólöfu) þá yrðu þetta að vera einhverjir væmnir og viðbjóðslegir frasar á borð við "Þú ert með svo mjúkar varir" eða "Búbbíbú, það er svo gott að kúra hjá þér". Well, I stand corrected. Ég verð að segja eins og er að eftir að ungur maður fór að venja komu sína í koju mína ytra þá hefur álit mitt á samskiptum kynjanna stóraukist - ég er ekki frá því að koddahjalið okkar sé bara með þeim allra skemmtilegustu stundum sem mér hlotnast. Þemað er einfalt og nær alltaf það sama - gubbu-, og/eða kúkasögur.

 

Mamma, ef þú ert að lesa - hættu því núna!

 

Þetta byrjaði nú á nánast penum nótum, þar sem maður getur nú ekki afhjúpað allan viðbjóðinn strax við fyrstu kynni. Ég sagði honum sögu um unga snót, og vil taka það fram strax að þetta var ekki ég. Hún hafði fengið sér örlítið of mikið neðan í því eina kvöldstund og haldið heim með manni sem henni var nú ekkert of kunnugur. Engu að síður þegar hún vaknar næsta dag er hún sátt við fenginn og hugsar með sér að eftir vill geti þetta nú eitthvað blómstrað. Hún þarf þó að haska sér í vinnuna og ákveður að vekja ekki kauða. Hún er stödd á baðherberginu hans að hressa örlítið upp á sig þegar náttúran kallar, á ópenni mátann. Hún sér ekki að hún fái undan því komist að bregða sér á dolluna og hleypa blessuðum lollanum sína leið. Í sjálfu sér finnst henni það ekki svo agalegt þar sem þetta er árla morguns og gerir hún fastlega ráð fyrir að kauði muni sofa af sér óþefinn. Það er þó ekki svo létt á henni brúnin þegar henni verður ljóst að um sé að ræða flotkúk sem sýnir ekki á sér nokkurt fararsnið. Eftir vangaveltur og vandræðagang sér hún ekki neina lausn aðra en að veiða kvikyndið upp úr og koma honum fyrir í haldapoka sem hún finnur á gólfinu.

 

Sátt við þetta úrræði klárar hún að þvo sér og koma sér í sæmilegt horf og ætlar svo að koma sér áleiðis. Með viðkomu í eldhúsinu, til þess að skrifa miða með huggulegum skilaboðum og nafni sínu og símanúmeri, brokkar hún út og skellir í lás á eftir sér. Glöð í bragði gengur hún eftir götu þess fullviss að nú hafi amor fundið hana og hamingjan sé rétt handan við hornið. Það er svo ekki fyrr en seinna þann dag sem hún minnist þess að hafa lagt haldapokann frá sér á eldhúsborðinu á meðan hún skrifaði miðann. Það sem kauði fékk frá henni var sem sagt nafn, símanúmer og kúkur í poka. Þess ber vart að geta að hann hringdi aldrei í hana.

 

Á koddanum hlógum við vel að þessari sögu og launaði hann mér hana með annarri svipaðri. Sú var um unga konu að reyna að vinna sig upp í viðskiptaheiminum. Hún er send á mikilvægan fund fyrir hönd fyrirtækis síns og þarf að hitta fyrir mikinn stórlax. Fundurinn gengur vonum framar og er hann kominn út í létt spjall á skrifstofu þess stóra. Rétt áður en kemur að því að hún þurfi að ná flugvél sinni til baka þarf hún að bregða sér á klósettið og verður þá að spyrja manninn hvar næstu aðstöðu sé að finna. Hann býður henni nú bara að gjöra svo vel og nota sína aðstöðu sem liggur inn af skrifstofunni. Hún kann nú ekki við að afþakka svo hún skellir sér þar inn og losar sig við morgunkaffið og bollurnar. Sama vandamál og áðan blasir við - hann fer hvergi! Hún þorir ekki að leggja samkomulagið sem þau höfðu náð að veði svo hún stingur hendinni ofan í klósettið og veiðir skrattann upp, vefur honum svo inn í klósettpappír og kemur fyrir í skjalatöskunni. Þegar hún ætlar svo að þvo sér kemst hún að því að sökum einhverra endurbóta vantar kranann. Í taugaveiklunarkasti heyrir hún manninn ræskja sig fyrir utan dyrnar svo hún veit að hún kemst ekki undan óséð. Bregður hún þá á að það ráð að sturta niður nokkrum sinnum og skola það versta af sér þannig. Þegar hún kemur út stendur maðurinn þar skælbrosandi og er ekki hjá því komist að taka í spaðann á honum. Hún sagði eftir á að hún hafi verið stjörf af þeirri tilhugsun um hvar þessi hendi var nýbúin að vera og af kúknum í töskunni.

 

Svona sögur flugu okkur á milli á meðan við vorum enn örlítið að halda aftur af okkur. En er fram liðu stundir fórum við að hætta okkur út á hálar brautir og sagði ég honum hina löngu frægu lýsissögu, sem ég ætla nú ekki að fara að rekja hér. En á móti fékk ég þá agalegustu sögu sem ég hef nokkurri sinni heyrt - ég hreinlega grét úr hlátri.

 

Mamma, í alvöru - ef þú ert enn að lesa HÆTTU!

 

Þannig var að kunningjar drengsins fóru af stað í veðmál um hvor gæti fyrr fengið baksviðspassa hjá einhverri snót. Sér annar fram á að vinna þetta veðmál og ætlar að hafa sannanir fyrir máli sínu. Hann fær þá annan félaga til að koma sér fyrir í fataskáp með video-cameru til að ná öllum ósómanum á mynd. Einhver forleikur á sér nú stað og svo er seilst eftir túpu með sleipiefni. Það er skemmst frá því að segja að drengurinn sprautar eins og hálfri túpu upp í rassgatið á stelpunni og makar svo rest á sjálfan sig. Það hafa kannski glöggir menn getið sér til um hvaða áhrif þessar stólpípuaðfarir höfðu. Jú, eftir fyrsta skak lekur út vænn skammtur af illa þefjandi leðju og verður drengnum sem greinilega er mikið niðri fyrir á orði "Did you just shit on my dick?". Óþefurinn er að fylla vit hans og styður hann sig við bakhluta konunnar til að reyna að ná andanum. Honum tekst nú ekki betur til en svo að hann hreinlega ælir upp í rassgatið á vesalings stelpunni. Hennar viðbrögð eru skiljanleg þar sem hún ælir líka. En ekki er öllu lokið þá, þar sem þriðji aðilinn, myndatökumaðurinn, á eftir að hendast út úr skápnum, ælandi. Það sem mér finnst allra best við þessa sögu er að sjálfsögðu sú staðreynd að stór hluti þessa skrípaleiks er til á myndbandi.

 

Ég veit nú ekki hvernig tilhugalíf gengur almennt fyrir sig, en nú hafi þið allavega fengið innsýn í mitt. Ég verð að segja að þvert á mína sannfæringu þá er koddahjal bara ekkert leiðinlegt.


BBC Gullmoli - III

Woman jailed for testicle attack
A woman who ripped off her ex-boyfriend's testicle with her bare hands has been sent to prison.

Amanda Monti, 24, flew into a rage when Geoffrey Jones, 37, rejected her advances at the end of a house party, Liverpool Crown Court heard.

She pulled off his left testicle and tried to swallow it, before spitting it out. A friend handed it back to Mr Jones saying: "That's yours."

Monti admitted wounding and was jailed for two-and-a-half years.

'Pulled hard'

Sentencing Monti, Judge Charles James said it was "a very serious injury" and that Monti was not acting in self-defence.

The court heard that Mr Jones had ended his long-term but "open relationship" with Monti towards the end of May last year.

The pair remained on good terms and on 30 May she picked him up from a party in Crosby and went back for drinks with friends at Mr Jones's house.

An argument ensued and Mr Jones said there was a struggle between them.

In his statement, Mr Jones said she grabbed his genitals and "pulled hard".

I am in no way a violent person
Amanda Monti

He added: "That caused my underpants to come off and I found I was completely naked and in excruciating pain."

The court heard that a friend saw Monti put Mr Jones's testicle into her mouth and try to swallow it.

She choked and spat it back into her hand before the friend grabbed it and gave it back to Mr Jones. Doctors were unable to re-attach the organ.

In a letter to the court, Monti said she was sorry for what she had done.

She said: "It was never my intention to cause harm to Geoff and the fact that I have caused him injury will live with me forever. I am in no way a violent person."

The letter added: "I have challenged myself to explain what has happened but still I just cannot remember. This has caused much anguish to me and will do for the rest of my life."


Af vörum barnanna

og hvar varst þú í alla nótt spurði sex ára systurdóttir mín mig eitt sinn í því er ég skreið niður stigann heima hjá mér með timburmenn sunnudagsins í eftirdragi. Önug svaraði ég gullfallegu barninu „ég var á pöbbanum Svanhildur, veistu hvað það er?  

 

Ég sá vitaskuld strax eftir því að hafa nefnt þetta þar sem ég gerði ráð fyrir ótal spurningum frá þessu, oft og tíðum, allt of fróðleiksfúsa barni.   

 

Í þetta sinn varð þó lítið um spurningar þar sem barnið, sem sjaldan þarf að leita langt eftir orðum, skvetti um leið framan í mig með háði „já, ég veit sko alveg hvað það er. Ef maður er á pöbbanum þá er maður að drekka bjór og bíða eftir að giftast. Maður fer þangað til þess að giftast. Þú ert alltaf á pöbbanum og enn átt þú engan karl til að giftast?  

 

Hún var búin að nefna ógeðisorðið þrisvar og þótti mér ráð að segja lítið þessu á móti til að auka hvorki á niðurlægingu mína né vonbrigði barnsins sem klárlega, eins og aðrir í fjölskyldunni, var farin að örvænta fyrir hönd þessa kvartaldar gamla kvenvargs. Niðurlút horfði ég í gaupnir mér og stakk bita upp í skoltinn.   

 

Heldurðu að þú komist einhvertíma á þennan vegg eða hvað?” gjall í barninu sem benti fram fyrir sig á vegginn prýddan brúðarmyndum af systkinum mínum, og fáeinum öðrum sem sennilega prýða vegginn til þess að minn fjórðungur hans standi ekki alveg auður. Enn átti ég ekkert svar fyrir barnið og kunni systur minni raunar litlar þakkir fyrir heimsókn krógans. Ég stóð upp frá borðinu og hlykkjaðist í átt að stiganum aftur til þess að heyra barnið segja fyrir aftan mig „alveg er ég viss um að pabbi gæti svo sem alveg ráðið við tvær kerlingar”.  

 

 

 

Ég hrökklaðist til rekkju full af vonleysi... – ein, eins og svo glöggt má skilja út frá áhyggjum barnsins.

 

Heima á ný

Rúm vika í Belfast að baki. Það er hreinlega óskiljanlegt hvað tíminn líður ónotalega hratt þegar maður skreppur í svona ferðir. 

Fyrstu næturnar gisti ég á hóteli í hjarta Belfast. Fallegt fjögurra stjörnu hótelið, sem víst ber þann vafasama heiður að vera mest uppsprengda hótel Evrópu, ber vott af velmegun og snobbi. Þetta vissi ég svo sannarlega ekki þegar ég bókaði gistinguna enda ljóst að þarna féll ég ekki of vel inn í fjöldann  þegar ég var að skakklappast heim á síðnóttum með skuggalega gesti í eftirdragi til að ráðast á mini-barinn. Gamlir næturverðir glottu við  þegar þeir voru að yfirgefa vaktina og ég er þess fullviss um að þeir voru einir starfsmanna hótelsins til þess að hafa húmor fyrir mér. Eitthvað verð ég nú að halda að snobbið hafi verið farið að nuddast yfir á mig þegar ég hafði ekki nokkurn húmor fyrir því þegar vinur minni pissaði í bolla og henti út um gluggann á níundu hæð – finnst það raunar ekki enn fyndið. Kannski er ég loksins að fullorðnast. Þó, að því sögðu þá hlæ ég enn þegar sá sami vinur sendir mér prumpin sín í gegnum MSN með reglulegu millibili. Fyrir skemmstu fékk ég svo best off remix með 40 bestu prumpunum. Þá var mikið hlegið – svona manni myndi ég giftast bara til þess að valda veröldinni armæðu enda óljóst hvað verður um jafnvægi jarðar þegar Freti og Ropa leiða saman krafta sína. 

Áramótin voru ágæt í Belfast en hvergi nærri eins mikil og maður á að venjast. Djammið var að sjálfsögðu gott og fjölbreyttara en fátt var um galakjóla (nema minn eigin vitaskuld), jakkaföt og flugelda. Skrítnast þótti mér nú að flugeldana skyldi vanta en það væri kannski viðbúið, í skugga sögunnar, að menn myndu óvart svara flugeldasýningu með bensínsprengjuárás. 

Ég skrapp aðeins á fornar slóðir, kíkti í gamla bæinn minn. Þar heimsótti ég m.a. foreldra Dave og hundana þeirra fjölmörgu. Ég hafði hugsað mér að kíkja á pöbbann minn en til þess vanst ekki tími - auk þess skilst mér að það sé jafnvel búið að loka honum. Kannski var fátt fyrir trygglynda kúnna mína að gera annað en að geispa golunni þegar Íslenska prinsessan var á brott. Eins og áður sagði þá leið tíminn hratt og fyrr en varði þurfti ég aftur að fara að troða ofan í tösku. Svo var kvatt með trega, fáeinum tárum og aragrúa óljósra loforða.  

Ég læt fljóta með eina mynd af sælli Mæsu í sætri ölvímu.

mbbell

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Mæja McFabulous

Höfundur

Mæja Bet Jakobsdóttir
Mæja Bet Jakobsdóttir

Ég er bara krakkakjáni í fullorðins líkama.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • martinhearty
  • martinhearty
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • Myndir 089

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 19666

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband