Ástarvikan

Vafalaust hafa flestir heyrt því fleygt að nú sé nýyfirstaðin ástarvikan í Bolungarvík, eins og svo oft eru skoðanir manna misjafnar og láta sumir stærri orð falla en aðrir og er það bara eins og það er og hefur jafnan verið. Sjálf hef ég furðu lítið orðið vör við áþreifanlega tilvist hennar og er satt að segja heldur skeptísk á títtnefnt framtak.

Þrátt fyrir að ég sé sannfærð um það að þessar uppskeruhátíðir, sem virðast nú eiga sér stað á nánast hverjum einasta útnára skersins okkar, séu bæjarbragnum afar hollar þá er ég ekki viss um að svo eigi við núna. Til þessa höfðum við markaðsdaginn og tókst þá afar vel til.

Þó ég vilji síður lasta neinn sem að þessu kemur þá þykir mér það að setja upp dagskrá undir yfirskini ástar jaðra við tvískinnungshátt þegar málum er eins háttað og þeim hefur verið hér nýverið. Þótt að ég teikni rauð hjörtu elska ég ekkert meira fyrir vikið, ekki frekar en ég næ að vera strákur með því að troða mér í jakkaföt.

 Ég er hvergi nærri alvitur um ástina, kannski bölvaður krakki í þeim efnum en ég hef alltað séð hana sem eitthvað sem á að vera hreint. Minn skilningur er svona:

Ástin er eitthvað sem ég hef séð í brúðkaupum sumarsins; þegar fólk ákveður að það sé búið að finna einu manneskjuna sem það getur hugsað sér að verja ævinni með. Ástin er að vera reiðubúinn að fórna öllu fyrir velferð einhvers annars, hvort sem um er að ræða maka eða barn. Ástin er að vera náunganum góður og að virða hann. Ástin er að standa við orð sín eftir fremsta megni, og að taka ábyrgð á því þegar það klikkar. Ástin er að grenja þegar maður kveður kæran vin eða stendur frammi fyrir endurfundum við hann. Ástin er að finna svo mikið til þegar einhver deyr að mann næstum langar að deyja líka. Ástin er ekki að flagga rauðu hjarta framan í fólk sem þú hefur verið að munnhöggvast við og særa með neðanbeltisskotum eða rógburði. Það særir mig að hugsa til þess að það sé einmitt sú hegðun sem hefur verið allt of áberandi hér nýverið og því foratta ég hugmyndir um að koma öll saman og tala um ást.

Væri ekki nær að slíðra sverðin og huga að sviðinni jörð? Koma saman og leita sátta? Kannski kemur ástin með tímanum, um það er svo sem ógjörningur að segja en eitt er víst að á undan ástinni þarf að koma viljinn til skilnings, þrautseigju og umburðarlyndis. Á undan ástinni hlýtur að þurfa að koma velvild og hana finnst mér oft of erfitt að sjá.


Borgarnes fyrir austan

Ég var stödd í pissuröðinni austur á fjörðum, umvafin einhverju fallegasta landslagi sem ég hef augum litið, í veðri sem var svo gott að það er nánast skömm að segja frá því, þegar ég varð vitni af smáum flokki fuglastofns sem ég veit ekki alltaf hvað mér á að finnast um. Þetta var sýnishorn af hinni Reykvísku Ungskvísu sem var á undan mér í röð á lengd við Aðalgötu Bolungarvíkur.

"Það er massa gaman hérna í Borgarnesi skilurru" sagði ein skvísan í símann. Hvumsa horfði ég á hinar skvísurnar og átti von á að einhver leiðrétti blessaðan ungann, sem sennilega var rétt skriðinn á kynþroskaaldurinn. Þær brostu þó allar og skríktu og virtust sammála því að þarna væri massa gaman. Ég var það svo sem líka en kannaðist ekki við það að hafa keyrt rúma 900 kílómetra til þess að lenda í Borgarnesi.

"Nei, ertu lame eða... ég er að meina Borgarnes fyrir austan þú'st,  Borgarnes eystri, aldrei heyrt um það eða...?"

 Í fyrstu hélt ég að sjálfsögðu að hér væru einföld mismæli á ferð en eftir því sem ég heyrði meira af símtalinu og svo ískrandi samskiptum flokksins þá sannfærðist ég um að svo væri ekki. Fjölmargt sem þeim fór á milli, þá sérstaklega sagan af fólkinu sem var rétt hjá Bifröst að leita að þessari tjaldborg í Borgarfirði, vakti hjá mér vangaveltur um það hvernig landafræðikunnáttu þessi tegund býr yfir.

Nær hún alla leið vestur á Seltjarnarnes? sem í norðvestri gæti staðið sem Vestfjarðakjálki Höfuðborgarsvæðisins, ef við ákveðum að kort af Höfuðborgarsvæðinu sé landakort. Ég sé fyrir mér sár vonbrigði skvísanna á vappi um Eiðistorg á páskunum í leit að æstum tónleikagestum Aldrei fór ég suður, "já, en það stendur að þetta sé fyrir vestan".

Skyldu þær halda austur í Grafarholt í leit að Neistaflugi eða upp í Grafarvog til að finna Langanes? Ef ég vil hafa þetta langsótt gætu þær nú freistast til þess að leita Færeyja á þeim slóðum enda lítið mál að komast að því að höfuðborg Færeyja sé einmitt á Langanesi. Hvar skyldu þær þá leita Færeyskra daga? Ég myndi skjóta á Garðabæ ef ég væri ekki efins um að þær hafi heyrt hann nefndan, en þær kannast vafalaust við Breiðholtið af skiltum á leið í Smáralindina, sem hlýtur að vera einhverstaðar í Dölunum.

Ferð í Árbæjarsafnið er að öllum líkindum hálendisferð og ætli þær leiti ekki Vatnajökuls einhvers staðar við Elliðavatn. Sennilega halda þessar (klárlega) 101 týpur sem ég hitti þarna að þær séu sveitastelpur þar sem smk. þeirra korti er það Hafnarfjörður sem er suðupunktur landsins sem þær þekkja.

 

Hvernig þessi flokkur villtist alla leið á réttan Borgarfjörð og hvernig hann yfirhöfuð vissi af tilvist hins fjarðarins er nokkuð sem ég veit ekki. Það sem ég veit er mín eigin upplifun á ferðinni og hún var dásamleg.

 Borgarfjörður eystri er að öllum líkindum fallegasti staður sem ég hef komið á. Leiðin þangað minnti mig töluvert á Noreg og þótti mér skörðin undir lok ferðarinnar minna glettilega mikið á Trollstigen í Romsdal. Þrátt fyrir að hafa verið á fótum í um 20 tíma og á keyrslu í tæpa tíu var ég agndofa yfir náttúrufegurð og hreinlega í skýjunum þegar á áfangastað var komið.

Tónleikarnir og skemmtanahaldið allt á laugardeginum stóð einnig fyrir sínu og eiga aðstandendur mesta hrós skilið. Ég og þær dásemdar kvensur sem ég ferðaðist með erum þegar farnar að ræða endurkomu að ári - ef ekki fyrr.


07.01.1991 - 06.06.2008

Ég hef verið fámál síðustu daga. Ekki vegna þess að ég sé ekki með á það að sumarið hefur heiðrað okkur með nærveru sinni upp á síðkastið eða vegna þess að mér detti ekkert til hugar. Þvert á móti þá hefur hugur minn unnið mikla yfirvinnu langt fram á nótt undanfarið. Ég er fámál vegna þess að ég er döpur og á slíkum stundum er oft best að þegja og láta hausinn um að melta það sem þar býr.mbogkolli

Á dögunum kvaddi ég elsta, traustasta og dásamlegasta vin sem ég hefði getað beðið um í þessari tilvist. Nú þekki ég ekki svo glöggt viðmiðunarreglur um það magn væntumþykju sem telst réttmætt gæludýrum til handa en ég segi með fullvissu að þær eru ekki margar mannverurnar sem komast jafn nærri hjarta mínu og hann Kolli minn gerði.

Ég var rétt níu ára gömul þegar ég eignaðist hann og strax varð hann dýrmætasta gjöf sem ég gat hugsað mér. Ég fékk að eiga hann í rúm 17 ár; frá því að ég var lítill, vængbrotinn krakkagemlingur með sjálfstraust á við kramda flugu þar til ég varð orðin fullvaxta og stundum alveg ótrúlega sterk manneskja. Ég veit ekki hvoru megin skalans ég raunar upplifði mig á meðan ég horfði á allt ljós fjara úr augum hans og tár detta af hvarmi mér á fyrrum svört veiðihárin, sem fyrir löngu urðu ellihvít.

 Irenejulebilder 350
Ég veit að ekki finnst öllum eðlilegt að syrgja ketti - en ég geri það og á eftir að syrgja hann lengi. Hann var ekki bara köttur fyrir mér, hann var alveg ótrúlegur og hann átti í mér hvert bein og hverja taug.

Fyrir það fyrsta var hann tröllvaxinn og oft og tíðum haldinn þeirri trú að hann væri að hluta til hundur - nema hvað að hann lyktaði aldrei illa og útskýrði oft fyrir mér hugtakið að vera kattþrifinn. Hann var veiðióður; dró inn mýs í hundraðatali, hina ýmsu smáfugla, spóa, kríur og slóst við hrafna og jafnvel hunda. Það brennur mér líka alltaf í minni þegar hann fór að fela bráðina uppi í Traðarlandi. Maggi bróðir var kannski ekki sá þrifnasti á þeim árum en var farinn að láta einhvern óþef fara mikið fyrir brjóstið á sér. Hann fór margsinnis í sturtu og gott ef hann skipti ekki líka á rúminu, en allt kom fyrir ekki. Hann meira að segja skrúbbaði á sér tærnar og henti öllu óhreinu í þvott. Ekki leystist þó ráðgátan um óþefinn fyrr en hann kíkti undir rúm og sá að þar var safnið hans Kolla; mús, nokkrar kríur og heill haugur smáfugla.

Kolli gerði þó meira en að veiða. Hann var mér jafn ljúfur og hann var fuglum grimmur. Ef eitthvað bjátaði á hjá mér var hann kominn upp í fangið á mér með það sama - oftast raunar löngu áður en nokkuð gerðist. Hann kúrði trýnið í hálsakot mér og allt varð einhverveginn léttara. Stundum teygði hann framloppurnar um hálsinn á mér og lagði svalt trýnið að vanga mér.

Þegar ég var í grunnskóla átti hann það til að fylgja mér í skólann; hann labbaði þá með mér að mörkum skólalóðarinnar, settist þar og horfði á eftir mér inn og tölti svo heim. Sama leikinn lék hann oft þegar ég skrapp á sjoppuna, beið svo eftir mér fyrir utan og tuðaði einhver ósköp á hálf-mjálminu sínu á leið upp brekkuna.

Myndir 089

Ég held að ekkert okkar, fólksins sem hann átti svo innilega, muni nokkurn tíma gleyma því þegar hann sagði mamma í fyrsta sinn. Hann átti sérstakt mjálm bara fyrir mig þar sem var sem rödd hans brysti og langur sérhljóði myndaðist inni í miðju mjálmi svo útkoman varð "maaaa'maaaa". Við kusum öll að trúa að hann væri lítil persóna, og ég átti hann og hann mig.

Ég rígheld í hvert hálmstrá í dag. Upplifun mín af hverri einustu minningu um hann er mín eigin og einskis að gagnrýna. Hann fylgdi mér, trúr og hlýr og sterkur í gegnum allt sem fyrir mér varð og ég elskaði hann fyrir það og ég sakna hans meira en ég hélt að ég gæti saknað nokkurs.


Vöggugjafir

Sem grís var ég alltaf hálf öfundsjúk út í þá vini mína sem gátu teiknað lista vel - sjálf er ég hvergi nærri drátthög enda prýdd ótal þumalfingrum og laus við fínhreyfingar. Ég var ekki há í loftinu þegar mér þótti útséð með það að ég myndi aldrei geta teiknað nokkurn skapaðan hlut og skyldi því snúa mér að öðru. Sem ég og gerði svo árum skipti.

Það var aðeins fyrir fáeinum mánuðum sem ég svo ákvað að prófa að teikna myndir fyrir vini mína á svona intervefssamskiptabrjálæðiskerfi sem kallast Bebo - viti menn, þar gat ég teiknað... eða svona nánast allavega. Ég mun kannski aldrei ná að teikna mynd með pennann að vopni, hann verð ég að nota til annars en ég get þó allavega skemmt sjálfri mér, sem og útvöldum vinum, með músina að vopni.

Sumir fá teiknihæfileika í vöggugjöf, ég er ekki ein af þeim. Ég verð víst að láta mér nægja yndisþokkann og ofurgáfurnar, hmmmmm

wee minnieminxwar of the williesstripper in the shadeturtlesbitch on iceI is maja i is eskimofeck offStewiepenis in a sushi placefinal fantasy VIIoink oinkheadless mermaidboobs in a bath

 


240 km, Eurovision og brotin tá

Þá er Hjólað í vinnuna dögunum lokið og skilst mér að Vegagerðin í heild sinni hafi verið í 4. sæti í sínum flokki. Mér þætti alveg gaman að sjá einstaklingstölur innan fyrirtækisins bara til þess að sjá hvert mínir 240 kílómetrar hafa skilað mér; ég veit allavega að ég er hæst hérna innan húss í Dagverðardalnum, enda því forskoti búin að búa ekki eins nálægt og hinir.

Ég hef nú verið að gæla við þá hugmynd að halda þessu jafnvel eitthvað áfram á meðan það viðrar svona vel og ég hef enn geð í mér til. Verð þó að láta það eiga sig þessa vikuna þar sem ég á eina litla, beyglaða tá sem á Sunnudag vaknaði eitthvað ósátt við meðferð sem hún mátti sæta á laugardagskvöldið.  Því miður verð ég að játa tilvist óminnishegrans það kvöld en hef þó einhverjar grunnsemdir um að samhengi sé á milli ástands tásunnar og þessara gríðarlegu hæla sem ég, í feikilegri eurovision-ölvímu, var að reyna að dansa í.

Ég held að það hafi verið úthugsað hjá skipuleggjendum að láta þessa daga enda rétt fyrir Eurovision - allavega er ég nokkuð efins um að ég sé eina manneskjan sem kom bogin og beygluð undan því kvöldi. Þetta var í fyrsta sinn í nokkur ár sem ég var hérlendis þessa keppnishelgi og þetta var bara vel biðarinnar virði. Eurovision er svo langt um betra hérna heima á Íslandi - við kunnum bara svo vel að gera stórfenglegt dæmi úr þessu og byggja upp vonir, skýjunum hærri og skemmtilegri.  Já, mér finnst þetta bara gaman og ætla ekkert að velta mér upp úr nágrannahollustu eða pólitík enda lítt sannfærð um við Íslendingar höfum bolmagn til að rífa kjaft þar.

Það skal þó nefnt að ég hef sjaldan verið sáttari við okkar framlag og sjaldan haft það jafn gott við að horfa á keppnina - það er örugglega fyrir öllu.


Markmið eða Manía

Ég er ein af þessum fjölmörgu manneskjum sem er alltaf ýmist í megrun, á leið í megrun eða að tala um megrun. Svo glettilega vill til að ég er líka ein af þeim sem fordæma þessa endalausu hringrás megrunar meira en góðu hófi gegnir, sennilega vegna þess að ég næ eiginlega aldrei neinum einasta árangri. Mér þykir líklegt að það sé skömmin yfir þessu eilífa árangursleysi sem knýr mig til þess að láta út úr mér fásinnu sem fer þvert á alla mína hugsum; 'megrun er fyrir fávita sem hafa ekkert annað til að lifa fyrir' eða ´ég er feit því ég vel að gera ekkert í því og gera bara það sem lætur mér líða vel' eru sérstaklega vinsæl þemu þegar þannig liggur á mér.

Eins kjánalegt og slíkt kann að hljóma er ég nú síður gáfulegri þegar ég er á hinum buxunum. Ég vakna kannski einn daginn og hugsa með sjálfri mér 'í dag er dagurinn... nú breytist ég í súpermódel'. Ég verð þá hreinlega manísk í hugsun - en bara í hugsun líka. Ég kaupi kort í ræktina og tala við einkaþjálfara. Ég dusta rykið af safapressunni minni, kaupi heilan haldapoka af ávöxtum og gref upp allt gotteríið sem ég á falið einhversstaðar og læt pabba éta það. Ég tek við matardagbók, innst inni vitandi að ég á aldrei eftir að gera neitt annað en að skálda eitthvað í hana og skrifa niður markmið fyrir komandi afrekstímabil eða það sem mætti líka kalla; mission turn Mæja Bet into Angelina Jolie. Þessi skrifuðu markmið eru kannski ekkert svo háleit, Þau eru bara eins loðin og sveigjanleg sem þau geta verið; léttast, líða betur og brosa. En markmiðin í kollinum á mér... úff og oj , talaði einhver um mikilmennskubrjálæði?

Það sem ég hugsa um er hvernig ég geti haldið áfram að lifa eins svín án þess að nokkur viti af því, hvernig ég geti falið fyrir umheiminum, vigtinni og sjálfri mér að ég sé í raun enn að lifa á fröllum og kokteilsósu á meðan ég mæti í ræktina þrisvar í viku þar sem ég þykist svitna en er í raun bara að hata allar mjónurnar í kringum mig. Þrátt fyrir nautnafýsn og leti ætla ég samt að ná undraverðum árangri, raunveruleg markmið mín eru að verða megabeib á örfáum vikum; ótrúlega mjó og falleg og allir þeir sem 'létu mig sleppa' skulu sko gráta mig og átta sig á að líf þeirra verður aldrei samt án mín. Markmið sem engin andlega heilsteypt manneskja lætur sér detta í hug.

Það sem ég hef lært á meðan á Hjólað í vinnunna hefur staðið er að markmið eru eiginlega frekar stórkostleg verkfæri þegar þau eru notuð rétt. Óshlíðin er bara hvert markmiðið af öðru og þegar einu slíku er náð líður mér stórkostlega - miklu betur en þegar einhverjum sem ég var einhvertíma skotin í líður illa. Á þessum fáu ferðum mínum í vinnuna hef ég unnið fjölmarga sigra; í fyrsta sinn sem ég hjólaði upp að vitanum án þess að stíga af, í fyrsta sinn sem ég hugaði ekki um að snúa við, í fyrsta sinn sem ég kúgaðist ekki áður en ég komst að krossinum, í fyrsta sinn sem ég kúgaðist ekkert alla leiðina, í fyrsta sinn sem ég hjólaði alla leið að húsinu hennar Gyðu frænku án þess að stíga af hjólinu til að kasta mæðinni. Ég gæti hjólað þetta daglega í heilt ár og samt alltaf verið að vinna smá sigur... glætan samt að ég ætli svo mikið sem að hugsa um að gera það. Eitt er það sem ég hlakka mikið til - fyrsta sinn sem ég get verið í einhverju úr þunnu efni þar sem geirurnar verða ekki í vígahug.

Að halda því fram að þessir örfáu hjólatúrar hafi breytt mér væri fásinna en ég er allavega búin að læra þetta með markmiðin og eins hef ég lært að leiðin frá Bolungarvík og inn í vegagerð er mun styttri þegar maður hefur um eitthvað að hugsa, þess vegna bullaði ég þetta á leiðinni inn eftir í morgun. Kannski fyrsta skáldsagan myndi fæðast ef ég hjólaði einhvertíma hringinn í kringum Ísland - ef ég vil að þema fyrstu skáldsögunnar sé hvernig mér líður í risavöxnum bossa sem mér finnst stundum að ætti alveg skilið eigið veðurkerfi. Það yrði þá allavega ekki bókin sem bjargar mannkyninu.

Að þessu sögðu ætla ég að skella mér inn á kaffistofu og fá mér gulrót - já, ég borða gulrætur núna, kannski er ég að breytast.


Þrjóska?

Það er ljóst að dagsform mannskepnunnar getur verið ansi misjafnt.

Það var hálfgerð nótt yfir bænum þegar ég vaknaði um fimmleitið í gær. Rök dalalæða lá yfir og enginn var á ferli nema geðvondir fuglar og ég. Eins ósofin og ég nú var þá spratt ég á fætur svona snemma og var hin geðbesta þar sem ég dundaði mér eitthvað heima áður en ég hélt af stað hjólandi inn á Ísafjörð. Mér fannst ferðin nokkuð léttari en hefur verið og lét hugann bara reika á meðan ég sigldi eftir Hlíðinni,  í gegnum þokuna.

Dagurinn í dag var aðeins á annan máta. Ég svaf lítið og illa. Draumfarir mínar voru síður en svo róandi og ég vaknaði í sífellu við einhvern ósóma í kollinum á mér. Ég ætlaði aldrei að hafa mig fram úr og þegar það hafðist leið mér ekkert vel. Mig verkjaði í skrokkinn og skapið var vægast sagt ömurlegt. Ég hefði kannski átt að skríða upp í rúm og fá mér tveggja tíma kríu áður en ég færi í vinnunna... - en mig langaði í kílómetrana fyrir Hlíðina.

Þegar ég dró öskuillan og sárann bakhluta minn út og skellti mér upp á hjólið sendi hann vanþóknunarbylgjur upp í mjóbak og mér var strax ljóst að það tæki mig tíma að bíta úr nálinni með þetta. Rassinn var fúll, og þegar hann er fúll fær hann ótrúlegustu líkamsparta í lið með sér. Ég bölvaði góðan hluta leiðarinnar og hugsaði oft um að snúa við.

Svo kom ég að brekkunni í Skarfaskeri. Það er alveg með ólíkindum hvað það er hreinsandi fyrir geðið að láta sig renna niður þessa brekku; augun fyllast af tárum vegna þess að vaxandi morgungolan lendir margföld í andlitinu á meðan maður missir alla stjórn í fáein andartök.

Eftir þetta var ég ekkert sérstaklega geðvond og leiðin ekkert svo agalega erfið, allavega ekki eins erfið og hún var framan af. Hitt er svo annað mál að nú stend ég ekki teinrétt, frekar í vinkil. En kílómetrana á ég svo hver veit nema ég hjóli aftur á morgun. Ég er allavega komin upp fyrir hundraðið og ætla því að hækka markmiðið upp í allavega 150 km.

Sjáum hvernig fer....


Mónusögur - II

Síðast þegar við skildi svaf ég vært eftir annasama nótt í fáránlegu veðri á ströndinni.

Það var sólbjartur og fallegur sunnudagur þegar ég vaknaði, sveitt og með sand á milli tánna. Mín fyrsta hugsun snérist að sjálfsögðu um Mónu, ég velti því fyrir mér hvort hún væri á lífi og svo efaðist ég um að hún myndi fyrirgefa mér þó hún lifði af.

Ég sá fyrir mér að annaðhvort væri bíllinn horfinn út á hafsauga og komin hálfa leið heim til Íslands eða þá að hún væri föst í haug af sandi. Ég sá fyrir mér blessaða pæjuna í risastórum sandkassa með fullt af horprýddum krakkagemlingum að byggja sandkastala á þakinu á henni. Ég las í gegnum ca. 400 gular síður til að leita að þjónustu sem dregur bíla - engin heppni í þeim efnum. Ég ákvað þá að bregða á það ráð að spyrja Aideen vinkonu mína hvað væri best til bragðs að taka, um að gera að koma fleirum inn í þessa skemmtilegu sögu þar sem kringumstæður voru að sjálfsögðu ekki neitt í vandræðalegri kantinum. Hún mætti á svæðið tilbúin að hjálpa mér að draga, ýta eða grafa upp bílinn, allt undir kringumstæðum komið. Ég klæddi mig upp fyrir tilefnið og rogaðist svo út í bíl með skóflur, planka og reipi, svitnandi eins og nauts pungur undan öllum þessum flíspeysum og herlegheitum. Ekki þótti okkur annað við hæfi en að taka með okkur fylgdarlið og hvílíkt lið sem það var; lítil prinsessa sem er svo pjöttuð að hún gat ekki einu sinni snert skóflu af ótta við að brjóta nögl og Simon - það þarf að hafa of mörg orð um það fyrirbæri til þess að ég leggi í að útskýra hann; í stuttu máli þá er hann geðveikur, illa gefinn og til alls gagnslaus.

Þarna var okkur ekki lengur til setunnar boðið og lá leiðin niður að strönd þar sem stund sannleikans beið okkar.

Þegar ströndin blasti við okkur í allri sinni dýrð iðaði hún af mannlífi. Fjölmargir bílar voru á víð og dreif um alla strönd og hópar af ískrandi krökkum hlupu um á þessum sólríka sunnudegi. Innan um alla þessa bíla niðri við sjóinn kom ég hvergi auga á Mónu. Ekki var laust við að ég hafi þurft að kyngja eins og einum kekki eða svo því mér leist ekkert á blikuna. Ekki fyrr en ég víkkaði sjóndeildarhringinn og sá að ca. kílómeter fyrir ofan sjóinn sat hún blessunin og beið mín. Ég settist inn og gat keyrt af stað án þess að hafa fyrir nokkrum hlut.

Að sjálfsögðu vildi fylgdarliðið skýringu á því af hverju ég hafi þurft að skilja hana eftir ef hún var svona langt uppi á strönd. Það er eins og þetta fólk hafi aldrei heyrt talað um flóð og fjöru. Ég þurfti að eyða mikilli orku í að útskýra háflæði fyrir Simoni sem samt skildi söguna alltaf þannig að sjórinn hafi bara skilað Mónu svona hátt upp á ströndina seinna meir. Ég náði aldrei að koma honum í skilning um að það var sjórinn sem færðist á meðan Móna var kyrr á sama stað - mér þætti fróðlegt að sjá útganginn á bíl eftir hremmingar á við þær sem Simon var farinn að lýsa. Mér hefur aldrei gengið neitt að troða skilningi inn í þennan þykka haus - manninum er bara ekki viðbjargandi, hann er og verður fyrsta flokks fáviti.

En hvað sem því leið keyrði ég Mónu heim af ströndinni eins og kátan titrara þar sem allur hjólabúnaður var fullur af sandi og selta hafði sest að víðast hvar. En eftir gott bað tók hún mig í sátt og sama kvöld héldum við á vit fleiri ævintýra í svefnleysinu


Hjólað í Vinnuna

Hvatningarátakið Hjólað í vinnuna hófst í dag og af því tilefni hljóma ég eins og þverflauta í hvert sinn sem ég dreg andann og er rauðflekkótt eins og rykfallin jólapera. Það verður fróðlegt að sjá göngulagið hjá mér á morgun þar sem þessi sívaxandi, óæðri svikari sem ég dreg með um allar trissur er helaumur. Hann á það skilið helvískur.

hjolamaesa

Ég geri nú síður ráð fyrir að hjóla úr Víkinni og inn í vegagerð á hverjum degi en ég er þó allavega loksins búin að prófa þetta. Alla mína hunds- og kattartíð hef ég gefist upp við vitann ef ég hef sett mér það að hjóla á Ísafjörð. Ég yrði mjög sátt við að ná 100 km þessa daga sem átakið stendur yfir - en ég ætla samt alls ekki að vera með neinar yfirlýsingar þess efnis... allavega ekki svona á fyrsta degi.

Þessi hjólatúr í morgun var annars bara nokkuð kósý - fátt betra en að vera staddur kófsveittur, hægfara og hjálmlaus á Óshlíðinni þegar byrjar að rigna. Ég er ekki frá því að fallegur niður grjóthrunsins hafi hjálpað heilan helling - ég var svo skíthrædd í hvert sinn sem ég leit upp í hlíðina og sá smágrjótið skoppa þar niður að í smá stund í senn snarhætti ég að vera löt, sopasækin bolla og steig petalana eins og andskotinn skoppaði á eftir mér með slátrið hangandi.

Nú er það bara spurningin hvort ég verð of stirð og snúin til þess að komast heim eftir vinnu...

 

 

 


Víkin og mannvirðing

Þær hafa verið fjörugar umræðurnar nýverið, jafnt utan Bolungarvíkur sem innan. Sitt sýnist hverjum um gang mála þar, eins og gengur. Sem endranær sveiflast menn afar misjafnlega á bilinu milli þess að vera elegant eða lágkúrulegur þegar kemur að því að viðra skoðanir sínar og verður það víst að hafa sinn vanagang. Sjálf ætla ég hér sem minnst að tjá mig um hvar ég stend, enda málið kannski ekkert einfalt. Það er misjafn sauður í mörgu fé eins og þar stendur, og stendur það enn þótt fjárhópurinn sé ekki stærri en í Víkinni. 

Einu hef ég þó höggvið eftir í þessum umræðum sem mér þykir vel. Þar sem umræður hafa víða þróast út í hjákátlegar, og oft og tíðum virkilega ósmekklegar, persónuárásir á þá sem að máli koma, eða inn í málið dragast, virðist alveg sama hvar fólk stendur, eða hvaða ‘liði’ það vill tilheyra; flestir virðast vera á einu máli þegar kemur að ágæti ungs og hljóðláts bæjarfulltrúa okkar. Þetta gleður mig enda álit mitt á þessum stórgreinda og réttsýna sómadreng mikið. Mér þykir það ákveðinn léttir að ungt og efnilegt fólk skuli séð í friði þótt menn þurfi að skiptast kröftuglega á skoðunum um fjölmargt annað, og að heiðri margra sé vegið. 

Þrátt fyrir að vilja ekki tjá mig frekar um stjórnsýslu bæjarins get ég ekki varist vangaveltum um þessa auðfengnu nafnleynd og mér liggur við að segja auknu svívirðu í tjáningu sem er tilkomin með internetinu. Auðvitað er rangt af mér að vilja meina að þetta hafi verið fundið upp á netinu, en það vissulega auðveldar fólki skítkast í skugga fjarlægðar og nafnleyndar. 

Nú á dögunum las ég bakþanka aftan á Fréttablaðinu undir fyrirsögninni Timburmenn Mótmælanna og þótti mér þetta afar skemmtileg lesning – enda skemmtileg stúlka sem handleikur pennann þar. Þarna fjallar Tóta Lee um þynnkuna sem tekur fólki opnum örmum þegar rennur af því bræðin og það hefur sagt eða gert eitthvað í hita augnabliksins sem það þarf nú að bíta úr nálinni með. Þegar fólk er að höggva í mannorð annarra undir nafnleynd þá er ég ansi hrædd um að þessir timburmenn mæti ekki á svæðið til þess að vekja fólk til umhugsunar um gjörðir sínar og auka þar með á ábyrgð. Þeir sem stunda hróp og köll með þessum hætti taka enga ábyrgð á orðum sínum og eru, að mínu mati, þar með komnir á jafnvel lægra plan en þeir sem senda tölvupóst þar sem þeir fara þess á leit við ráðamenn landsins að þeir svipti sig lífi.

Ég er kannski einfeldningur en mér finnst svona bara í einu orði sagt ljótt og litlu marktækara en það sem skrifað stendur á klósetthurðum grunnskóla landsins af ungmennum, sem vita ekki betur, á meðan þau berjast við ólgandi hormónaflæði og notast við rökin af því bara.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Mæja McFabulous

Höfundur

Mæja Bet Jakobsdóttir
Mæja Bet Jakobsdóttir

Ég er bara krakkakjáni í fullorðins líkama.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • martinhearty
  • martinhearty
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • Myndir 089

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 19605

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband