Páskagleði

Mig rekur ekki minni til þess að  mér hafi fundist ég áður vera að koma svona vel undan vetri. Vömbin er að vísu vel þanin og rassinn að færast nær gólfinu á hverjum degi en einhvernvegin er ég samt bara kát.

Það er 18. mars – dagur heilags Patreks og heilgas Bjarna að baki, og framundan  er páskahátíðin í allri sinni dýrð.  

Ég söng alla leiðina inneftir í morgun og er enn heldur kampakát. Á morgun ætla ég að keyra suður til þess að sækja Niamh, vinkonu mína sem ætlar að vera hjá mér í rúma viku. Það gleður mig ósegjanlega að stúlkan ætli að koma og stoppa hjá mér, enda í alla staði yndislegt eintak af kvenmanni. Hún hefur nú lengi haft augastað á ungum frænda mínum og ég ber sterkar vonir til þess að eitthvað gangi eftir á þeim vettvangi um páskana svo hún komi ef til vill oftar.   

Teljist mér rétt til hef ég ekki verið hérna heima um páska síðan 2003 og iða ég alveg í skinninu að komast á Aldrei fór ég suður. 2003 páskarnir voru nú samt alveg einstaklega góðir og flæðir nú yfir mig nostalgían. Mig minnir að við Eva höfum pantað okkur 18 flöskur af rósavíni og prýtt melluholuna góðu með þeim auk ógrynnis annarra veiga.

Það sem stendur einna mest upp úr frá þeim páskum eru þó óneitanlega hestaferðirnar okkar á Þingeyri – þær voru ógleymanlegar. Fyrsta ferðin hófst að sjálfsögðu á miklum tilraunum til að hrista af sér töluvert þráláta timburmenn, svo rámar mig óljóst í margar tilraunir til þess að komast upp á hestinn en það hafðist ekki fyrr en ég fékk einhvern koll til að stíga upp á – auðmjúk var ég nú uppfrá því. Það var þó ekki það sem gerði þessa sögu ódauðlega heldur náin kynni mín við lífsháska. Eva Ólöf varð fyrir því óhappi að demba sér af baki og fékk Sigurbjörg það hlutverk á meðan að halda í tauminn á hesti Hrafnhildar sem hljóp um til að aðstoða Evu. Það verður seint af henni Sigurbjörgu minni tekið hversu glettilega klaufsk hún getur verið á köflum og þarna sannaðist það sem oft, bæði fyrr og síðar, þegar hún gerði sér lítið fyrir og snaraði mig með taumnum á hesti Hrafnhildar. Við vorum staddar í örlitlum halla, sem í minningunni vill oft verða rússíbanabrekka. Brjánsi, hesturinn sem ég sat á, vildi niður hallann en hesturinn sem var að hengja mig vildi upp. Aldrei í lífi mínu mun ég hafa upplifað aðra eins adrenalínvímu og er sannleikurinn um hvernig þetta ástand blessaðist falinn í móðu þeirrar vímu. 

Við fórum nú samt aftur á bak þessa páska. Þá með ungan mann meðferðis sem endaði á stökki, laus í hnakknum. Ég hef ekki fleiri orð um það – enda marið vonandi löngu hjaðnað nú í dag. 

Ég væri sko alveg til í að komast á hestbak þessa páska líka, svo hef ég líka augastað á ferð þar sem fólki verður boðið að dorga í gegnum ís – það væri nú ekki til þess að spilla staðalímyndinni fyrir þeirri írsku. Ég ætla samt lítið að ákveða fyrirfram, bara njóta páskanna í góðra vina hópi. Það eitt er þó víst að þessir páskar verða nú öllu penni en þeir sem ég upplifði 2003, enda er maður að þroskast svo með árunum. –Ég held allavega í vonina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ódauðleg setning, sem einnig kom fram hjá þessum unga manni...

VILJIÐI HÆTTA ÞESSUM ANDSKOTANS KOSSUM!!! og ríghélt svoleiðis í tauminn...

 En þetta var góður dagur, ættum að endurtaka hann kannksi;)

Eva Ólöf 18.3.2008 kl. 20:57

2 identicon

Þú ert einstök María Elísabet! það verður ekki af þér tekið:) hef óskaplega gaman af því að lesa sögurnar þinar hér á síðunni;) kv. Stebba

Stebba 20.3.2008 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mæja McFabulous

Höfundur

Mæja Bet Jakobsdóttir
Mæja Bet Jakobsdóttir

Ég er bara krakkakjáni í fullorðins líkama.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • martinhearty
  • martinhearty
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • Myndir 089

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 19714

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband