07.01.1991 - 06.06.2008

Ég hef verið fámál síðustu daga. Ekki vegna þess að ég sé ekki með á það að sumarið hefur heiðrað okkur með nærveru sinni upp á síðkastið eða vegna þess að mér detti ekkert til hugar. Þvert á móti þá hefur hugur minn unnið mikla yfirvinnu langt fram á nótt undanfarið. Ég er fámál vegna þess að ég er döpur og á slíkum stundum er oft best að þegja og láta hausinn um að melta það sem þar býr.mbogkolli

Á dögunum kvaddi ég elsta, traustasta og dásamlegasta vin sem ég hefði getað beðið um í þessari tilvist. Nú þekki ég ekki svo glöggt viðmiðunarreglur um það magn væntumþykju sem telst réttmætt gæludýrum til handa en ég segi með fullvissu að þær eru ekki margar mannverurnar sem komast jafn nærri hjarta mínu og hann Kolli minn gerði.

Ég var rétt níu ára gömul þegar ég eignaðist hann og strax varð hann dýrmætasta gjöf sem ég gat hugsað mér. Ég fékk að eiga hann í rúm 17 ár; frá því að ég var lítill, vængbrotinn krakkagemlingur með sjálfstraust á við kramda flugu þar til ég varð orðin fullvaxta og stundum alveg ótrúlega sterk manneskja. Ég veit ekki hvoru megin skalans ég raunar upplifði mig á meðan ég horfði á allt ljós fjara úr augum hans og tár detta af hvarmi mér á fyrrum svört veiðihárin, sem fyrir löngu urðu ellihvít.

 Irenejulebilder 350
Ég veit að ekki finnst öllum eðlilegt að syrgja ketti - en ég geri það og á eftir að syrgja hann lengi. Hann var ekki bara köttur fyrir mér, hann var alveg ótrúlegur og hann átti í mér hvert bein og hverja taug.

Fyrir það fyrsta var hann tröllvaxinn og oft og tíðum haldinn þeirri trú að hann væri að hluta til hundur - nema hvað að hann lyktaði aldrei illa og útskýrði oft fyrir mér hugtakið að vera kattþrifinn. Hann var veiðióður; dró inn mýs í hundraðatali, hina ýmsu smáfugla, spóa, kríur og slóst við hrafna og jafnvel hunda. Það brennur mér líka alltaf í minni þegar hann fór að fela bráðina uppi í Traðarlandi. Maggi bróðir var kannski ekki sá þrifnasti á þeim árum en var farinn að láta einhvern óþef fara mikið fyrir brjóstið á sér. Hann fór margsinnis í sturtu og gott ef hann skipti ekki líka á rúminu, en allt kom fyrir ekki. Hann meira að segja skrúbbaði á sér tærnar og henti öllu óhreinu í þvott. Ekki leystist þó ráðgátan um óþefinn fyrr en hann kíkti undir rúm og sá að þar var safnið hans Kolla; mús, nokkrar kríur og heill haugur smáfugla.

Kolli gerði þó meira en að veiða. Hann var mér jafn ljúfur og hann var fuglum grimmur. Ef eitthvað bjátaði á hjá mér var hann kominn upp í fangið á mér með það sama - oftast raunar löngu áður en nokkuð gerðist. Hann kúrði trýnið í hálsakot mér og allt varð einhverveginn léttara. Stundum teygði hann framloppurnar um hálsinn á mér og lagði svalt trýnið að vanga mér.

Þegar ég var í grunnskóla átti hann það til að fylgja mér í skólann; hann labbaði þá með mér að mörkum skólalóðarinnar, settist þar og horfði á eftir mér inn og tölti svo heim. Sama leikinn lék hann oft þegar ég skrapp á sjoppuna, beið svo eftir mér fyrir utan og tuðaði einhver ósköp á hálf-mjálminu sínu á leið upp brekkuna.

Myndir 089

Ég held að ekkert okkar, fólksins sem hann átti svo innilega, muni nokkurn tíma gleyma því þegar hann sagði mamma í fyrsta sinn. Hann átti sérstakt mjálm bara fyrir mig þar sem var sem rödd hans brysti og langur sérhljóði myndaðist inni í miðju mjálmi svo útkoman varð "maaaa'maaaa". Við kusum öll að trúa að hann væri lítil persóna, og ég átti hann og hann mig.

Ég rígheld í hvert hálmstrá í dag. Upplifun mín af hverri einustu minningu um hann er mín eigin og einskis að gagnrýna. Hann fylgdi mér, trúr og hlýr og sterkur í gegnum allt sem fyrir mér varð og ég elskaði hann fyrir það og ég sakna hans meira en ég hélt að ég gæti saknað nokkurs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ohh veistu ég skil þig svo alveg fullkomlega !! 100%

Kannski er þetta undarlegt fyrir suma, þ.e. að syrgja gæludýrin sín en ekki fyrir mig. Ég átti líka kisu, hana Mjásu í einhver15 ár held ég og ég hágrét þegar hún dó eða var látin deyja sökum elli og veikinda. Hún var svo yndisleg og ég gleymi henni aldrei. Hund hef ég líka átt og sakna á  hverjum degi..þetta er ótrúlegt, gæludýrin verða hluti af manni, þau skilja mann og maður þarf ekki einu sinni að tala við þau, einföld hreyfing eða augnaráð segir margt.

Knús til þín pía:)

Vala Dögg 13.6.2008 kl. 10:45

2 identicon

Hæ Mæsa frænka.

Det var dumt at kolli døde.Jeg er veldig lei meg og da har vi ingen katt til og klappe når vi kommer til island.

Jeg husker best når jeg og Kolli lekte i senga til amma og afi.Kolli stakk altid når jentene kom.

Skulle ønske at ingen dyr eller mennesker skulle dø.

Hilsen Daniel Màr.  

Daniel Màr Jakobsson. 13.6.2008 kl. 15:39

3 identicon

Elsku Mæja Bet. Ég er farin að skæla yfir fallegu færslunni þinni. Kisur eru svo merkileg dýr

Guðbjörg María 14.6.2008 kl. 18:17

4 identicon

Æi Mæsan mín..... Skil þig mjög vel, erfitt að missa svona yndislegt dýr:)

Karitas 15.6.2008 kl. 21:58

5 identicon

Samhryggist þér enn og aftur krúttan mín!! :*
Veistu það að mér finnst bara ekkert eðlilegra en að syrgja gæludýrin sín. Mér þykir óendanlega væntum hana Heklu mína, jafn mikið og kannski aðeins meira en lúðann hann bróður minn;) ... Þessar elskur eru með þeim fáu sem komast næst manni, það er nú bara þannig...
Hafðu það bara rosalega gott í borg óttans yfir helgina! :-D

Vera 19.6.2008 kl. 17:26

6 identicon

Svartur, loðinn, sterkur, kelinn,

frænku sinnar prinsinn.

Mín sorg er sár og brostin skelin,

er þú stígur síðasta dansinn. 

Hvíl í friði prinsinn okkar, við pössum mömmuna þína fyrir þig. 

Stóra Sys. 23.6.2008 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mæja McFabulous

Höfundur

Mæja Bet Jakobsdóttir
Mæja Bet Jakobsdóttir

Ég er bara krakkakjáni í fullorðins líkama.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • martinhearty
  • martinhearty
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • Myndir 089

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 19660

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband