Laugardagur, 25. apríl 2009
Mitt X
Undanfarnar vikur hef ég átt afar erfitt með að vita á hvorri hliðinni ég á að sofa, hef ég jafnvel reynt að bregða á það ráð að finna mér notalega legu á bakinu til að forðast að taka þessa ákvörðun. Nú er hinsvegar runnin upp sá dagur að afstöðu er þörf og enn rembist ég við að hafa það notalegt með tærnar upp í loft. Innan fárra klukkustunda mun ég þó velta mér og er ég bara alls ekki viss um að ég muni láta fólki það eftir að gefa það upp hvar ég lendi.
Eitthvað hefur fólk verið að karpa um það hvort það sé rétt að vilja að halda ákvörðun sinni fyrir sig; vilja margir meina að ekkert sé eðlilegra en að gefa upp skoðanir sínar er varða framtíð landsins. Ég er á þeirri skoðun að fólk eigi að fá að eiga sína skoðun sjálft - allt frá fæðingu til, og framyfir, framkvæmd, ef það svo kýs. Ef fólk aftur vill láta í ljós sitt val þá er það undir þeim sjálfum komið og ekki ætla ég að atast við því.
Það sem aftur ergir mig er hrokinn falinn í því að gagnrýna fólk sem ekki vil gefa sitt upp. Það að kjósa fyrir luktum dyrum, eins og lög gera jú ráð fyrir, er ekki afstöðu- eða áhugaleysi. Þeir sem standa á götuhornum æpandi sína afstöðu að hverjum þeim sem vill, tjah eða vill ekki heyra, bera ekkert meiri umhyggju fyrir þjóð sinni í brjósti. Þeir sem geta ákveðið sig á augabragði eru alls ekkert að taka sterkari afstöðu til framtíðar landsins en þeir sem þurfa tíma, ráðrúm og næði. Ef til vill er þessu þá heldur öfugt farið.
Persónulega öfundast ég örlítið út í þá sem vita alltaf hvað þeir ætla að kjósa, svo fremi sem þeir eru þá að kjósa af hreinni sannfæringu. Sjálf þarf ég mikið að hugsa, vega og meta; skítur á móti drullu, eins og mér finnst staðan vera í dag. Ekki svo að skilja að mér þyki allt vont sem mér stendur til boða að kjósa - þvert á móti hefur hver einasti listi upp á einhverja glimrandi einstaklinga að bjóða en almáttugur hvað þau rotnu epli sem alls staðar virðast fylgja gera mér erfitt fyrir að ætla að leggja mitt einasta eina X þar við.
Mig langar svo að mitt eina atkvæði telji og ég veit að það getur gert það. Þarf ég ekki að leita lengra en til þess þegar varpa þurfti hlutkesti í bæjarstjórnarkosningum hér um árið. En hvar get ég látið það telja? Stór hluti af mér horfir freistingarauga til þess að skila auðu - enda ekki einn einasti listi að heilla mig. Mér þykir það súrt að þurfa að leggja blessun mína yfir heilan lista þegar fjölmargir einstaklingar á öllum listum virðast stuða mig. Ég vil geta kosið eftir sannfæringu, en hvað geri ég þegar ég er ekki sannfærð?
Ég var snögg að afskrifa nokkra lista, þar ýmist leist mér ekki á forystuna, hugmyndafræðin var of ólík minni eða spillingin olli mér ógleði. Ég ákvað því að leita mér að einstaklingi sem ég hef trú á, einhverjum sem ég álít sannann, sterkan og líklegan til þess að koma einverju til skila. Ég hef valið mér þennan einstakling og stefni á að setja mitt eina atkvæði til þess að reyna að styðja þennan aðila. Það má vel vera það þyki mörgum óábyrgt að kjósa svona; ég er ekkert of sátt við listann í heild sinni en þessi einstaklingur verður að teljast í baráttusæti og af þeim aðilum sem svo kunna að standa lýst mér best á hann. Þannig vel ég í dag. Ekki vegna þess að ég er sauður, þó mörgum megi finnast svo, heldur vegna þess að enginn listi nær til mín og ég ætla því, af fyllstu sannfæringu að setja X við aðila sem ég hef fulla trú á , aðila sem mér finnst að geti verið jákvætt afl í hafsjó þeirrar neikvæðni sem ég hef trú á að verði einkennandi á næstu mánuðum. Ég ætla að velja mér persónu vegna þess að á henni hef ég trú þegar trú mín á flestu öðru er farin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. febrúar 2009
Ferð í Kaupstað
Ég tók skottúr suður til Reykjavíkur í vikunni. Tilefnið var nú bara að funda stuttlega með stéttarfélaginu mínu; þótti mér sá fundur ganga helst til mikið út á það að mála ákaflega svarta mynd af lífinu og tilverunni. Það var þó helst Steingrímur J. sem fann einhverja ljósa punkta á meðan hann hélt tölu yfir okkur, hálf ískrandi af tilhlökkun yfir því að komast aftur yfir á Alþingi - enda þá orðið nokkuð ljóst að aðeins væru nokkrar klukkustundir eftir af setu Davíðs í Seðlabankanum.
Mér finnast þessar eilífu tölur um að hann verði að víkja löngu orðnar sérkennilegar og nánast farnar að ilma af þráhyggju. Vísast var kominn tími á breytingar en mér þykir sérkennileg öll sú orka, fyrirhöfn og allur sá illa nýtti tími sem fór eingöngu í þetta eina verkefni. Það lá við að kreppan gleymdist á meðan fólk hataðist út í Davíð - nú verðum við sennilega að fara að skoða helvítis stöðuna aftur og finna einhvern annan til að bölsóttast út í. Kannski snúum við okkur aftur að útrásarvíkingunum. Hver veit. Ég hef satt að segja skammarlega litla skoðun á þeim efnum, væri frekar reiðubúin að nota þá takmörkuðu orku sem ég hef þegar að stjórnmálum kemur í eitthvað annað og meira en að eltast við sökudólga einhvers sem ekki verður til baka tekið. Ég er soddann krakki í hugsun þessa dagana að ég hef allt að því barnslega trú á því að með vinnu og visku troðum við þessum ljótu tímum aftur fyrir okkur. Það er þá bara vonandi að mistök, og þá meina ég mistök allra, verði á blöð sögunnar skráð svo við e.t.v. lærum af þeim.
En hvað sem öllu kreppuhjali líður þá halda Reykvíkingar á að vekja mér kátínu. Ég settist upp í leigubíl í gærmorgun og bað bílstjórann af miklu öryggi að stefna á Hlemm, vissi nú að áfangastaður minn væri á mörkum Grettisgötu og Rauðarárstígs og ég sagði honum það þegar hann spurði hvort ég ætlaði að taka strætó þaðan. Umferðin hægði eitthvað örlítið á okkur svo ég tók upp kurteisishjal um veðrið sem varð þá til þess að hann spurðist fyrir um það hvaðan ég væri. Eins og ávallt svaraði ég því kát og stolt að ég væri frá Bolungarvík. "Nú, jæja vinan... og hefur þú komið til höfuðborgarinnar áður?" Spurði þessi kostulegi bílstjóri. Að sjálfsögðu hló ég við, enda þótti mér ég þegar hafa sýnt fram á nokkra þekkingu á Reykjavík, og játti því. "Það er nú ekkert hlægilegt, það er til fullt af fólki sem hefur aldrei farið út fyrir sinn heimabæ." Vissulega er það rétt hjá honum en tilfellið er eins og ég sagði honum að "líklega heita rúm 90% þeirra Reykvíkingar".
Ég held að maðurinn hafi séð gúmmítútturnar mínar og gert ráð fyrir að ég væri afdalameri í mínu fyrsta kaupstaðarleyfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. febrúar 2009
Vinsamleg tilmæli til íbúa Nýja Íslands
Mikið þætti mér vænt um ef fólk gæti kippt mér út af póstlistunum sem það er að fylla af leiðinlegum pósti um nýja hitt og nýja þetta. Látum vera þessar hjákátlegu nafngiftir hinna sökkvandi banka en Nýja Ísland... er fólki alvara?
Mér dettur ekkert í hug sem er meira í anda þess 'gamla og gallaða' en einmitt þetta; hendum þessu gamla og kaupum bara nýtt. Ef aðeins bót og betrun fengjust nú með því einu að skeyta þessu litla(þreytta) orði framan við allt.
Þá væri sko Mæja Bet sem svaf af sér ræktina í morgun orðin Nýja Mæja; mjó og endurbætt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 5. febrúar 2009
Mónusögur -III
Síðast þegar ég skildi við hana Mónu mína höfðum við náð sáttum eftir örlitlar hamfarir á ströndinni. Allt hafði fallið í ljúfa löð hjá okkur enda vill til að brennt barn forðast eldinn... - eða hvað?
Það er auðvitað bölvuð fásinna eða helber lygi - allavega þegar ég á í hlut. Stuttu eftir strandblakið fór ég heim í jólafrí svo blessunin fékk frí frá mér í nokkrar vikur en þegar ég lenti aftur á eyjunni grænu leið ekki dagur án ævintýra.
Þegar við heimkomu skruppum við Ryan í smá ökuferð;
Þar sem við vorum nú ekki búin að hittast svo vikum skipti höfðum við um ýmislegt að spjalla og því var það rétt á milli hláturroka sem mér varð litið á veginn. Því gætti ég ekki alveg nógu vel að mér og áður en ég vissi af var ég komin á helvítis ströndina - AFTUR. Ég vil að sjálfsögðu koma því á framfæri að ég vildi koma mér á brott áður en til átaka kæmi á milli Mónu og sandhólanna en nei, það mátti ekki. Karlmaðurinn vildi endilega fá að taka smá rallí. Full efasemda hleypti ég honum þó í bílstjórasætið enda hafði ég tímabundið skellt loku fyrir minningar um það hversu illa hann kunni að koma bíl af stað án þess að þenja og spóla. Á meðan hann spólaði Mónu mína dýpra og dýpra ofan í sandinn stóð þvermóðska hans (sem hann er ríkur af) í ströngu við að meina honum að leifa mér að sjá hvort einhverju yrði bjargað. Því fór sem fór - AFTUR. Að þessu sinni var sandurinn þurr og við órafjærri sjónum. Því tók uppgjöfin ekki við strax heldur tveir klukkutímar af mokstri, andvörpum og brjálæðislegum hlátri. Allt kom þó fyrir ekki svo við hringdum á flóttataxa og fékk því stúlkan mín næturstað á ströndinni - AFTUR.
Ég hafði tekið vilyrði af vinkonu minni, eftir að heim kom, um að hjálpa mér við það daginn eftir að draga Mónu mína upp, þess gerðist þó ekki þörf.
Um tíuleitið var dinglað í Makró, sem gerðist þar sjaldan svo snemma dags. Mér var líka heldur betur brugðið þegar ég sá vígalegan lögregluþjón tvístíga á tröppunum hjá mér; "So, errr.... your car is stuck at the Portstewart beach". Ég skeit á mig! Hann var þó glaðhlakkalegur og virtist bara vilja gera grín að mér eins og hann vissi að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem þetta hafði komið upp á. Hann sagði mér það að bíllinn yrði dreginn upp klukkan 11 og ég þyrfti að vera á staðnum. Því næst þrástagaðist hann á nafninu mínu og sagði að hann þyrfti greinilega að leggja það á minnið. Það var ekki fyrr en síðar að ég fékk fregnir af því að á meðan ég var í jóalfríi hafi lögreglumaður verið búinn að kíkja þarna við til þess að spyrja hvort ekki hafi allt blessast með bílinn sem hafði verið fastur einn morguninn. Þegar ég sá nafnspjald sem hann hafði skilið eftir skildi ég loksins glósurnar frá honum. Flott, þetta var sem sagt sami lögreglumaðurinn að koma í annað sinn.
Þar hafði ég það í landi ofstækisfullra mótmælenda og IRA var ég, litla , saklausa og á köflum klaufska Mæja Bet að verða góðkunningi lögreglunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. janúar 2009
Varmá - Harmá
Áðan las ég frásagnir stelpu sem er fyrrum nemandi í Varmárskóla í Mosfellsbæ - blessunarlega einmitt fyrrverandi. Samkvæmt lýsingum hennar var hún nemandi þar í 9 nöturleg ár. Ég var sjálf svo ólánsöm að ganga í þennan skóla í 2 vetur fyrir tæpum 2 áratugum síðan og er það tími sem ég myndi aldrei vilja endurtaka, og lífsreynsla sem ég myndi ekki óska neinum. Frá tíma mínum þar á ég aðeins fáar, óljósar, sárar og ljótar minningar og ekki einn einasta vin sem ég hef nokkurn tímann heyrt í eða af eftir að ég flutti. Þetta voru köld og einmannaleg ár sem ég tala ógjarnan um enda lítil ástæða til þess að vitja þeirra.
Ég hinsvegar get ekki varist bræði yfir lýsingum stúlkunnar á sömu viðbrögðum og ég man eftir. Skólayfirvöld og starfsfólk sem horfir í hina áttina á meðan einstaklingar eru sigtaðir út af grimmum meirihluta og á þeim traðkað með óafsakanlegum, og stundum óafturkræfum, hætti. Þessi stúlka bjó við þetta í níu ár og þrátt fyrir að hafa verið mér öllu hugrakkari og leitað til skólayfirvalda eftir aðstoð endaði skólaganga hennar þarna með því að hún rauk á dyr, einsömul og algjörlega óstudd af þeim aðilum sem treyst hafði verið fyrir æsku hennar.
Ég tek ofan fyrir þessari stúlku sem núna fjallar á opinskáan hátt um það sem ég hef aldrei rætt og mun sennilega aldrei fara neitt ofan í saumana á. Ég tek líka ofan fyrir henni að hafa haldið þetta út í heil níu ár, sem fyrir 15 ára gömlu barni er gríðarlega stór hluti þess lífs sem hún þekkir. Ég vona að hún vinni sig hratt og örugglega í gegnum þetta og að hún komist yfir vangaveltur um réttlæti gerendum eineltis til handa. Slíkar vangaveltur eru engum til góðs og geta beinlínis verið hættulegar. Ég held að það sé mikilvægt andspænis ranglæti að trúa því að örlögin muni sjá um að útdeila réttlæti þar sem við á. Það er alltént ekki okkar að saxa á gæfu annarra - en við getum notað allan okkar mátt og lærdóm til þess að auka við okkar eigin. Þetta vona ég að stúlkunni lærist svo bræði hennar í garð þeirra sem níddu hana nái með tímanum að sjatna, ég vona að hún muni að það voru börn líka sem með tímanum munu læra að iðrast og finna til sektar sem, ef til vill, verður erfiður baggi að bera.
Hvað skólayfirvöld varðar hinsvegar á ég ekki til nokkurn skilning. Ég efast ekki um að vegna umfjöllunar í kjölfar frásagnar stúlkunnar muni þau eiga til aragrúa útskýringa og afsakana - en þetta er með öllu óafsakanlegt. Hér er ekki um að ræða barn sem læddist með veggjum og var nítt í skjóli þagnar. Hér er um að ræða einelti sem skólayfirvöld, sem gefa sig út fyrir að vinna eftir kerfi sem á einmitt að koma í veg fyrir og vinna gegn einelti, hafa í lengri tíma verið fullkomlega meðvituð um. Þau geta ekki þóst koma af fjöllum, þau geta ekki afsakað þetta. Þrátt fyrir að það séu önnur börn sem lítilsvirða einstaklinginn þá held ég að það séu einmitt svona viðbrögð eins og þau sem stúlkan mætti sem vinna mesta skaðann.
Bloggar | Breytt 19.1.2009 kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 28. október 2008
Guðsmildi
Það er mikil Guðsmildi að ég skuli hafa fæðst til hóps dreifara, enda öllum ljóst að ekki gætir nokkurra áhrifa utan höfuðborgarsvæðisins, vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Samfélagsleg ábyrgð er okkur landsbyggðarhyskinu óþekkt hugtak og höldum við bara áfram að lifa í barnslegri einfeldni og fáfræði aftan úr grárri forneskju á meðan hetjurnar í Mammonshelvítinu Reykjavík axla fyrir okkur og bera þær byrgðar - og svona líka glimrandi vel og tígulega.
Það vona ég sannarlega að kaldhæðni mín skili sér í skrifuðu máli, sem hún myndi gera væri ég að segja þessi orð upphátt- froðufellandi og hvumsa, við þá sem helst eiga skilið að heyra þau.
Ég get orðið svo þreytt á sjálfsvorkunnar- og fábjánahjalinu í fólki stundum.
"Úff núna væri sko bara loksins munur að búa bara úti á landi, allt þetta* hefur bara ekki nokkur áhrif á neinn nema okkur í Reykjavík".
* Þetta var það sem 'Reykvíkingurinn' kallaði ástandið í efnahagsmálum á Íslandi, eða eins og viðkomandi sá það efnahagskrísuna sem herjar nú á Reykjavík og Reykjavík eingöngu.
Þessi aleina setning hefði í sjálfu sér verið nóg til þess að ég hefði viljað gleypa í mig heilan lauk til þess að kæfa niður þá háværu og blóðugu bræði sem var að byggjast upp innra með mér. Bræðin var hinsvegar búin að vera að vaxa jafnt og þétt allar þær 14 klukkustundir sem ég var búin að sitja undir áhyggjuþvaðri tómra Reykvíkinga svo þessi setning var að öllum líkindum bara sú síðasta sem ég heyrði, og man skýrt, áður en ég datt inn í ómynnisland ergelsis og ógleði. Ég get svarið það að mér var tekið að svima undan kjaftæðinu í þessu fólki. Samt sat ég á mér.
Skyldi svo fara að einhver þeirra sem sátu til borðs með mér þegar þessi orð voru töluð, færi nú að ramba hér inn og taka þetta til sín fylgja hér afsökunarbeiðnir;
- mér tekur það nærri að þú skulir ekki átta þig á því að heimurinn er stærri en rassgatið á þér
- mér þykir leitt að þú skulir láta sláandi lágar tölur af atvinnuleysi á landsbyggðinni sannfæra þig um að þar sé allt í uppsveiflu og að þú skulir ekki reyna að velta því fyrir þér af hverju atvinnuleysi þar eykst ekki þegar fjölmiðlar hafa spúið yfir okkur hörmungarsögum (oftast sönnum aldrei þessu vant) af fækkun starfa undanfarin ár
- mér þykir leitt að þú áttir þig ekki á því að þegar störfin eru tekin þá fer fólkið og að þú getir ekki einu sinni fengið þig til að skoða samhengið á milli atvinnuleysis í Reykjavík og fólksflótta af landbyggðinni
- mér þykir leitt að þú skulir vorkenna þér svona mikið vegna hækkunar á þegar svimandi háum lánum og að þú skulir neita að sjá að áfallið á hverjum og einu er oft í beinu hlutfalli við það hversu himinhátt viðkomandi hefur leyft sér að lifa
- mér þykir ekki leitt að lánin mín séu kannski lægri en þín en vissulega leitt að þú skulir ekki átta þig á því af hverju
- og síðast en ekki síst - hugsanlega eina algjörlega einlæga afsökunarbeiðnin - mér þykir afar leitt að ég skuli ekki hafa haft manndóm til þess að standa upp á meðan þú nöldraðir og biðja þig að halda kjafti og hugsa aðeins
Ég hef margoft sagt það, eins og ég stend enn við, að mér leiðist að ræða alla þessa hádramatísku geðveiki sem einkennir stöðu mála í dag... en það þýðir ekki að ég hugsi ekki um þetta. Ég er alltaf að sannfærast betur um það að þeir sem tala mest hugsa oft langminnst.
Viva Reykjavík með öll sín vandamál sem enginn annar fær smjörþefinn af - ég ætla að leyfa deyfðinni, vonbrigðunum og ergelsinu að spyrja; getur hugsast að helsta vandamál Reykjavíkur sé kannski að hún sé með langmesta hlutfall óþenkjandi einstaklinga?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 9. október 2008
Verublogg
Eitthvað við þetta myndband fékk mig til þess að hugsa um hana Veru Dögg (eða kannski myndböndin hennar) sem var að detta heim eftir smá túr til Amsterdam - ég spyr einskis út í ferðina, en þykist nú viss um að svona englaásjón eins og hún Vera lendi seint í veseni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. október 2008
Gamlar færslur III - Sælla minninga & Asetonískir handakrikar
Endurteknar, kjánalegar sögur af sjálfri mér eru allt sem ég hef að segja í dag;
Sælla Minninga
Ég stend, á berum bossanum, fyrir framan spegilinn á baðinu og mér er starsýnt á það sem við mér blasir. "Fimm ár" tauta ég, í vanþóknun og vantrú, rétt í því sem ég teigi fram vísifingur og strýk honum eftir ímyndaðri kjálkalínu á speglinum. "Þessi íðilfagra snoppa er allt of spegilslétt til að þessi tölfræði almanaksins geti mögulega verið rétt." Ég flissa þegar ég tauta þetta undir handakrikann, gríp svo hnefafylli af appelsínuhúð, neðan við sístækkandi bossann, og hristi duglega áður en ég dembi mér ofan í allt of heitt baðið.
Fimm ár finnst mér gífurlegur tími, þó er ekki nóg með að þessi fimm ár frá útskrift hafi liðið á ljóshraða heldur öll þau níu frá því að ég fyrst mætti í menntaskólann. Mér finnst það ekki ólíkleg tilhugsun að áður en ég verð búin að snúa mér við verði ég í sömu sporum og skemmtilega frúin sem flutti ræðu tuttugu og fimm ára júbilanta 16. júní. Á meðan ég hlustaði á hana rifja það upp hvernig hún mundi menntaskólann fór velti ég því fyrir mér hvernig menntaskólinn man okkur. Hvaða atvik eru það sem samferðafólkið man? Mér þykir forvitnilegt að velta því fyrir mér og eins þótti mér sérstaklega gaman að heyra mismunandi punkta frá ólíku fólki á þessum stutta tíma sem við áttum til endurfunda.
Eins og gefur að skilja var vinsælt að rifja það upp þegar ég, á harðahlaupum, missti niður um mig súmó-bleyjuna þegar við dimmiteruðum. Að sjálfsögðu flæktist þá frenjan vel fyrir fótum mér með þeim afleyðingum að ég féll kylliflöt og steinrotuð í göngugötuna á Akureyri, og tókst mér í leiðinni ekki aðeins að taka með mér heilann rekka af ferðatöskum, sem þar voru til sýnis, heldur líka að beygla og bráka vel á mér olnbogann. Skemmtilegt þótti að segja frá því í fréttatíma það kvöldið að súmóglímukappi hafi rotast í miðbæ Akureyrar. Þá er mér minnistætt eftir þetta þegar húsfrúin dásamlega frá Steinnesi kom og sauð okkur stöllunum egg og endaði svo á að þurfa að mata mig þar sem ég hef litla hæfni til slíkra verka með vinstri hendi.
Annað atvik, öllu ófrægara, var sagan af naglalakkeyðinum mínum í 1. bekk - hún er einstaklega heimskuleg. Hún barst þó oftast í tal núna þar sem frægasta atvik mitt um þessa helgi var kannski ekki mjög ósvipað. En það er skemmst að segja frá því að mér þótti einkennilegt þegar ég vaknaði eftir strembna óvissuferðina að ég skyldi æla sápukúlum. En svo kom á daginn að ég hafði, í misgripum, tekið glas af uppþvottalegi og tæmt úr því í skoltinn á mér. Svo það sé á hreinu - þá voru glösin hlið við hlið og alveg örugglega eins á litinn.
Það sem mér fannst þó flestir hafa hvað mest yndi af að rifja upp var fastur liður úr mötuneytinu. Nú er ég ekki viss hversu mikið fólk almennt veit um mig, en ég hef þó í gegnum tíðina, stöku sinnum, gerst sök af matvendni. Hér áður og fyrr þótti mér fátt verra en sósa, og hvað þá svona pottréttasósa prýdd alls konar grasi og viðbjóði. Þetta var þó vinsælt hjá þeim í mötuneytinu og var það ósjaldan sem okkur var boðið upp á gúllas í einmitt svona sósu með kartöflumús. Eins mikið og ég reyndi að láta lítið fyrir vanþóknun minni fara varð tækni mín við át á þessu þó fljótt mönnum kunnug og kom víst æði vel upp um sérvisku mína. Alltaf skyldi ég taka með mér auka vatnsglas og heilan regnskóg af bréfþurrkum. Kjötbitana veiddi ég svo upp einn af öðrum, skolaði þá í auka vatninu og þurrkaði af með bréfi. Ég sum sé át kjötið ískalt, vatnsmaukað og með trefjatæjum úr servíettunni. Þessi tækni var þó sjaldnar notuð þegar ég komst yfir símanúmerið hjá Greifanum.
En það er nú langt liðið frá þessum minningum, ég ætla þó ekki að lofa bót og betrun, en lengi má vona. Og á þetta jafnt við um bloggleti mína sem og sérvisku og seinheppni.
Fyrir þá sem ekki kannast við söguna af naglalakkeyðinum þá læt ég fljóta með aðra gamla færslu þar sem hún kom fyrir;
Asetonískir handakrikar
Þegar ég vaknaði í morgun vissi ég að ég færi ekki fram úr rúminu nema ég velti mér upp úr einhverju sem hefur komið mér til að skella upp úr í gegnum tíðina. Þetta var snúið verk þar sem ég er einstaklega þröngsýn manneskja, með háþróaða, vandláta og fágaða kímnigáfu og ekki þekkt fyrir það að hníga niður úr hlátri vegna einhverra smámuna. Ég lagði hugann í pollinn (sem kattarmjónan hafði útbúið á koddanum mínum með að reka bossann í vatnsglas í gluggakistunni) og fór að velta mér upp úr einhverju sem mér finnst fyndið. Ég fór að hugsa um einn morgunn síðan ég var í 1. bekk í menntaskóla hvað ég hafði bitið það í mig að vinna bug á morgunillskunni og láta ekkert raska ró minni þó það væri ekki nema þennan eina morgunn.
klukkuviðundur mitt öskraði þar til blóðhlaupnar glyrnur mínar opnuðust til að slátra þessari tussu, herbergisfélaginn lá steinsofandi í næsta rúmi og ég, elskuleg að venju, kunni ekki við að kveikja ljósið svo ég reyndi að græja mig aðeins í myrkrinu. Eftir að hafa nánast hengt mig við að koma mér í brjóstahaldarann og nær kæft mig við að hneppa buxunum mínum teygði ég mig upp í hillu til að sletta á mig smá svitarolloni, enn svefnblind og utangátta kippti ég mér lítið upp við fnykinn sem gaus upp þegar ég slengdi vænni gusu í handakrika mína. Það var ekki fyrr en ég fann vota strauma leka niður með síðum mínum sem ég áttaði mig á því að ég hafði gripið í naglalakkeyðinn í stað svitabrúsans.
Sótsvört af illsku og angandi af eiturgufum mætti ég í skólann stuttu seinna, staðráðin í að láta á engu bera og ljóma af tilbúinni kæti. Þegar ég svo þvældist fyrir sjálfri mér í efstu tröppunni, með þeim grátkómísku afleiðingum að ég skoppaði niður allar tröppurnar og inn í miðjan hóp myndarlegra 4bekkinga , stóð ég upp, vel rjóð og sælleg að sjálfsögðu, og gekk rakleiðis inn í stofu. Ég hafði þó enn ekki urrað!
Síðdegis, þegar skóla lauk var brosið enn á sínum stað. Þar sem ég arkaði á mínum kvenlega hálendishraða með 70 cm reglustrikuna mína gnæfandi upp úr skólatöskunni fannst mér dagurinn hafa heppnast alveg ágætlega. Það var ekki fyrr en ég leit upp og sá að fólk lá í hrönnum allt í kringum mig grenjandi úr hlátri að mér varð litið aftur fyrir mig til að komast að þeirri viðbjóðslegu staðreynd að ég hafði snarað einn gullfallegan 4bekking með reglustrikunni. Aumingja maðurinn hafði flækt reim utan um spjótið sem stóð upp úr töskunni og var búinn að dragast á eftir mér út alla ganga án þess að ná sambandi við þennan glaðhlakkalega geðsjúkling sem klárlega var með hugann einhversstaðar í sveitum landsins. Ég hélt mér væri allri lokið.
En hvað um það, upprifjun mín á þessum morgni var nóg til að ég drattaðist á lappir...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 6. október 2008
- Þögn -
Ég hef verið ansi þögul upp á síðkastið, af hverju veit ég þó ekki. Ástæðan er sennilega ekki sérstök, svo sannarlega ekki merkileg. Ég veit þó að við erum alveg örugglega ekki nógu mörg sem þegjum þessa dagana.
Ég geri mér fulla grein fyrir að óvissa og örvænting eru víða ríkjandi núna og vissulega er útskýringa þörf, og lausna ekki síður. Mikið eru eyrun mín þó tekin að þreytast á öllu kvakinu sem berst úr öllum áttum. Ég nenni varla að opna fyrir miðla því ég hef ekki orku í að meðtaka allt þetta upplýsingaflæði sem breytist á nokkurra sekúndna fresti og var oft ekki einu sinni nálægt sannleikanum til að byrja með. Á meðan ég ákveð að láta öðrum, mér fróðari og viljugri, það að fjalla um allt sem efst er á baugi þá dreymir mig um þögnina.
Honum Winston Churchill varð einhverju sinni á orði setning sem staldrað hefur við hjá mér frá því ég sá hana fyrst hafða eftir honum á prenti "when the eagles are silent the parrots begin to jabber". Mikið vildi ég að það væri okkur eins létt að greina á milli og það er í dýraríkinu.
Þegar ég ákvað að slá þessari tilvitnun inn í google, til þess að fullvissa mig um að ég færi ekki rangt með hana, þar sem ég er sannarlega ekki ein af Örnum nútímans og þarf oft aðstoð til þess að vita mínu viti, rakst ég á aðra góða sem ég hafði heyrt frá örðum Breta. Það var sagnfræðingur að nafni Thomas Carlyle sem sagði "Silence is the element in which great things fashion themselves". Ég er ekki frá því að þetta sé eitt af því sem ég get vel trúað. Í hið minnsta hef ég ekki nokkra trú á því að neitt stórkostlegt geti gerst á meðan við erum öll gjammandi hvert ofan í annað.
Ég er þreytt á efnahagsumræðunni, ekki vegna þess að ég vilji hundsa hana þar sem hún er svekkjandi, skella í gír afneitunar og óska mér allra vandræða á brott. Ég er þreytt á að vita ekki hvern ég á að hlusta á, þreytt á að skilja ekki það sem mér er sagt, þreytt á mótsögnum, rökleysu, múgæsingslegum frammíköllum og endalausum afsökunum og ásökunum.
Mig langar bara að trúa einhverjum, en í ljósi þess að ég mun sennilega ekki trúa fyrr en einhver þegir og hugsar, þá trúi ég sennilega engum í bráð. Gjammandi hrægammar umlykja mig, með jafnt fagurgala sem fúkyrðum. "Ég sagði þér það, ég sagði þér það" segja þeir hver í kapp við annan og allt sem gerist í mínum kolli er að ég óska mér að þeir hreinlega haldi kjafti - kannski er ég bara algjör kjáni - en mig langar að þeir haldi, í smá stund, kjafti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 20. ágúst 2008
Marty Hearty - BBC Gullmoli útaf fyrir sig
Ég var að tala við góðan vin minn Marty Hearty í gær, enda langt síðan ég hafði fengið af honum fréttir.
Marty er afar geðþekkur/sjúkur ungur maður sem ég var svo heppin að kynnast á námsárunum.
Hann er fæddur og uppalinn nærri landamærum lýðveldisins og Norður Írlands og birtist manni sem persónugerving þeirrar togstreiu sem þar ríkir. Á flestan hátt er hann þó bara gangandi skopmynd alls þess sem maður hefur ímyndað sér um írskar fyllibyttur - fyndnasti maður sem ég þekki en jafnframt einn sá ljúfasti. Mér þykir mjög vænt um kauða og hef, þrátt fyrir oft og tíðum skuggalegt líferni hans, óbilandi trú á honum. Ég var því himinlifandi þegar hann sagði mér að BBC hafi komist í stutt kvikmyndaverkefni sem hann gerði og keypt það. Þeir létu þó ekki staðar numið þar og hafa boðið honum vinnu við að skrifa fyrir sig gamanþætti. Samningar standa enn yfir og þykir mér spennandi að vita um framhaldið.
Hér sjáið þið áhrifamikið myndbandið sem opnað hefur augu mín fyrir þeim hrottaskap sem á sér stað í fótbolta.
http://www.bbc.co.uk/northernireland/milkcup/?vid=uuc_balls
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Mæja McFabulous
Tenglar
Dásemdar fólk
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar