Mónusögur - II

Síðast þegar við skildi svaf ég vært eftir annasama nótt í fáránlegu veðri á ströndinni.

Það var sólbjartur og fallegur sunnudagur þegar ég vaknaði, sveitt og með sand á milli tánna. Mín fyrsta hugsun snérist að sjálfsögðu um Mónu, ég velti því fyrir mér hvort hún væri á lífi og svo efaðist ég um að hún myndi fyrirgefa mér þó hún lifði af.

Ég sá fyrir mér að annaðhvort væri bíllinn horfinn út á hafsauga og komin hálfa leið heim til Íslands eða þá að hún væri föst í haug af sandi. Ég sá fyrir mér blessaða pæjuna í risastórum sandkassa með fullt af horprýddum krakkagemlingum að byggja sandkastala á þakinu á henni. Ég las í gegnum ca. 400 gular síður til að leita að þjónustu sem dregur bíla - engin heppni í þeim efnum. Ég ákvað þá að bregða á það ráð að spyrja Aideen vinkonu mína hvað væri best til bragðs að taka, um að gera að koma fleirum inn í þessa skemmtilegu sögu þar sem kringumstæður voru að sjálfsögðu ekki neitt í vandræðalegri kantinum. Hún mætti á svæðið tilbúin að hjálpa mér að draga, ýta eða grafa upp bílinn, allt undir kringumstæðum komið. Ég klæddi mig upp fyrir tilefnið og rogaðist svo út í bíl með skóflur, planka og reipi, svitnandi eins og nauts pungur undan öllum þessum flíspeysum og herlegheitum. Ekki þótti okkur annað við hæfi en að taka með okkur fylgdarlið og hvílíkt lið sem það var; lítil prinsessa sem er svo pjöttuð að hún gat ekki einu sinni snert skóflu af ótta við að brjóta nögl og Simon - það þarf að hafa of mörg orð um það fyrirbæri til þess að ég leggi í að útskýra hann; í stuttu máli þá er hann geðveikur, illa gefinn og til alls gagnslaus.

Þarna var okkur ekki lengur til setunnar boðið og lá leiðin niður að strönd þar sem stund sannleikans beið okkar.

Þegar ströndin blasti við okkur í allri sinni dýrð iðaði hún af mannlífi. Fjölmargir bílar voru á víð og dreif um alla strönd og hópar af ískrandi krökkum hlupu um á þessum sólríka sunnudegi. Innan um alla þessa bíla niðri við sjóinn kom ég hvergi auga á Mónu. Ekki var laust við að ég hafi þurft að kyngja eins og einum kekki eða svo því mér leist ekkert á blikuna. Ekki fyrr en ég víkkaði sjóndeildarhringinn og sá að ca. kílómeter fyrir ofan sjóinn sat hún blessunin og beið mín. Ég settist inn og gat keyrt af stað án þess að hafa fyrir nokkrum hlut.

Að sjálfsögðu vildi fylgdarliðið skýringu á því af hverju ég hafi þurft að skilja hana eftir ef hún var svona langt uppi á strönd. Það er eins og þetta fólk hafi aldrei heyrt talað um flóð og fjöru. Ég þurfti að eyða mikilli orku í að útskýra háflæði fyrir Simoni sem samt skildi söguna alltaf þannig að sjórinn hafi bara skilað Mónu svona hátt upp á ströndina seinna meir. Ég náði aldrei að koma honum í skilning um að það var sjórinn sem færðist á meðan Móna var kyrr á sama stað - mér þætti fróðlegt að sjá útganginn á bíl eftir hremmingar á við þær sem Simon var farinn að lýsa. Mér hefur aldrei gengið neitt að troða skilningi inn í þennan þykka haus - manninum er bara ekki viðbjargandi, hann er og verður fyrsta flokks fáviti.

En hvað sem því leið keyrði ég Mónu heim af ströndinni eins og kátan titrara þar sem allur hjólabúnaður var fullur af sandi og selta hafði sest að víðast hvar. En eftir gott bað tók hún mig í sátt og sama kvöld héldum við á vit fleiri ævintýra í svefnleysinu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 mæja bet mín þú ert allveg ótrúleg og efni í marga "skáld"sögur, ég mindi kaupa þær allar og sérstklega ef þú værir að skirfa þær líka ;)

Inga Birna 11.5.2008 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mæja McFabulous

Höfundur

Mæja Bet Jakobsdóttir
Mæja Bet Jakobsdóttir

Ég er bara krakkakjáni í fullorðins líkama.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • martinhearty
  • martinhearty
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • 800px-Trollstigen Norway 2006
  • Myndir 089

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband