Laugardagur, 25. apríl 2009
Mitt X
Undanfarnar vikur hef ég átt afar erfitt með að vita á hvorri hliðinni ég á að sofa, hef ég jafnvel reynt að bregða á það ráð að finna mér notalega legu á bakinu til að forðast að taka þessa ákvörðun. Nú er hinsvegar runnin upp sá dagur að afstöðu er þörf og enn rembist ég við að hafa það notalegt með tærnar upp í loft. Innan fárra klukkustunda mun ég þó velta mér og er ég bara alls ekki viss um að ég muni láta fólki það eftir að gefa það upp hvar ég lendi.
Eitthvað hefur fólk verið að karpa um það hvort það sé rétt að vilja að halda ákvörðun sinni fyrir sig; vilja margir meina að ekkert sé eðlilegra en að gefa upp skoðanir sínar er varða framtíð landsins. Ég er á þeirri skoðun að fólk eigi að fá að eiga sína skoðun sjálft - allt frá fæðingu til, og framyfir, framkvæmd, ef það svo kýs. Ef fólk aftur vill láta í ljós sitt val þá er það undir þeim sjálfum komið og ekki ætla ég að atast við því.
Það sem aftur ergir mig er hrokinn falinn í því að gagnrýna fólk sem ekki vil gefa sitt upp. Það að kjósa fyrir luktum dyrum, eins og lög gera jú ráð fyrir, er ekki afstöðu- eða áhugaleysi. Þeir sem standa á götuhornum æpandi sína afstöðu að hverjum þeim sem vill, tjah eða vill ekki heyra, bera ekkert meiri umhyggju fyrir þjóð sinni í brjósti. Þeir sem geta ákveðið sig á augabragði eru alls ekkert að taka sterkari afstöðu til framtíðar landsins en þeir sem þurfa tíma, ráðrúm og næði. Ef til vill er þessu þá heldur öfugt farið.
Persónulega öfundast ég örlítið út í þá sem vita alltaf hvað þeir ætla að kjósa, svo fremi sem þeir eru þá að kjósa af hreinni sannfæringu. Sjálf þarf ég mikið að hugsa, vega og meta; skítur á móti drullu, eins og mér finnst staðan vera í dag. Ekki svo að skilja að mér þyki allt vont sem mér stendur til boða að kjósa - þvert á móti hefur hver einasti listi upp á einhverja glimrandi einstaklinga að bjóða en almáttugur hvað þau rotnu epli sem alls staðar virðast fylgja gera mér erfitt fyrir að ætla að leggja mitt einasta eina X þar við.
Mig langar svo að mitt eina atkvæði telji og ég veit að það getur gert það. Þarf ég ekki að leita lengra en til þess þegar varpa þurfti hlutkesti í bæjarstjórnarkosningum hér um árið. En hvar get ég látið það telja? Stór hluti af mér horfir freistingarauga til þess að skila auðu - enda ekki einn einasti listi að heilla mig. Mér þykir það súrt að þurfa að leggja blessun mína yfir heilan lista þegar fjölmargir einstaklingar á öllum listum virðast stuða mig. Ég vil geta kosið eftir sannfæringu, en hvað geri ég þegar ég er ekki sannfærð?
Ég var snögg að afskrifa nokkra lista, þar ýmist leist mér ekki á forystuna, hugmyndafræðin var of ólík minni eða spillingin olli mér ógleði. Ég ákvað því að leita mér að einstaklingi sem ég hef trú á, einhverjum sem ég álít sannann, sterkan og líklegan til þess að koma einverju til skila. Ég hef valið mér þennan einstakling og stefni á að setja mitt eina atkvæði til þess að reyna að styðja þennan aðila. Það má vel vera það þyki mörgum óábyrgt að kjósa svona; ég er ekkert of sátt við listann í heild sinni en þessi einstaklingur verður að teljast í baráttusæti og af þeim aðilum sem svo kunna að standa lýst mér best á hann. Þannig vel ég í dag. Ekki vegna þess að ég er sauður, þó mörgum megi finnast svo, heldur vegna þess að enginn listi nær til mín og ég ætla því, af fyllstu sannfæringu að setja X við aðila sem ég hef fulla trú á , aðila sem mér finnst að geti verið jákvætt afl í hafsjó þeirrar neikvæðni sem ég hef trú á að verði einkennandi á næstu mánuðum. Ég ætla að velja mér persónu vegna þess að á henni hef ég trú þegar trú mín á flestu öðru er farin.
Um bloggið
Mæja McFabulous
Tenglar
Dásemdar fólk
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.