Föstudagur, 16. janúar 2009
Varmá - Harmá
Áðan las ég frásagnir stelpu sem er fyrrum nemandi í Varmárskóla í Mosfellsbæ - blessunarlega einmitt fyrrverandi. Samkvæmt lýsingum hennar var hún nemandi þar í 9 nöturleg ár. Ég var sjálf svo ólánsöm að ganga í þennan skóla í 2 vetur fyrir tæpum 2 áratugum síðan og er það tími sem ég myndi aldrei vilja endurtaka, og lífsreynsla sem ég myndi ekki óska neinum. Frá tíma mínum þar á ég aðeins fáar, óljósar, sárar og ljótar minningar og ekki einn einasta vin sem ég hef nokkurn tímann heyrt í eða af eftir að ég flutti. Þetta voru köld og einmannaleg ár sem ég tala ógjarnan um enda lítil ástæða til þess að vitja þeirra.
Ég hinsvegar get ekki varist bræði yfir lýsingum stúlkunnar á sömu viðbrögðum og ég man eftir. Skólayfirvöld og starfsfólk sem horfir í hina áttina á meðan einstaklingar eru sigtaðir út af grimmum meirihluta og á þeim traðkað með óafsakanlegum, og stundum óafturkræfum, hætti. Þessi stúlka bjó við þetta í níu ár og þrátt fyrir að hafa verið mér öllu hugrakkari og leitað til skólayfirvalda eftir aðstoð endaði skólaganga hennar þarna með því að hún rauk á dyr, einsömul og algjörlega óstudd af þeim aðilum sem treyst hafði verið fyrir æsku hennar.
Ég tek ofan fyrir þessari stúlku sem núna fjallar á opinskáan hátt um það sem ég hef aldrei rætt og mun sennilega aldrei fara neitt ofan í saumana á. Ég tek líka ofan fyrir henni að hafa haldið þetta út í heil níu ár, sem fyrir 15 ára gömlu barni er gríðarlega stór hluti þess lífs sem hún þekkir. Ég vona að hún vinni sig hratt og örugglega í gegnum þetta og að hún komist yfir vangaveltur um réttlæti gerendum eineltis til handa. Slíkar vangaveltur eru engum til góðs og geta beinlínis verið hættulegar. Ég held að það sé mikilvægt andspænis ranglæti að trúa því að örlögin muni sjá um að útdeila réttlæti þar sem við á. Það er alltént ekki okkar að saxa á gæfu annarra - en við getum notað allan okkar mátt og lærdóm til þess að auka við okkar eigin. Þetta vona ég að stúlkunni lærist svo bræði hennar í garð þeirra sem níddu hana nái með tímanum að sjatna, ég vona að hún muni að það voru börn líka sem með tímanum munu læra að iðrast og finna til sektar sem, ef til vill, verður erfiður baggi að bera.
Hvað skólayfirvöld varðar hinsvegar á ég ekki til nokkurn skilning. Ég efast ekki um að vegna umfjöllunar í kjölfar frásagnar stúlkunnar muni þau eiga til aragrúa útskýringa og afsakana - en þetta er með öllu óafsakanlegt. Hér er ekki um að ræða barn sem læddist með veggjum og var nítt í skjóli þagnar. Hér er um að ræða einelti sem skólayfirvöld, sem gefa sig út fyrir að vinna eftir kerfi sem á einmitt að koma í veg fyrir og vinna gegn einelti, hafa í lengri tíma verið fullkomlega meðvituð um. Þau geta ekki þóst koma af fjöllum, þau geta ekki afsakað þetta. Þrátt fyrir að það séu önnur börn sem lítilsvirða einstaklinginn þá held ég að það séu einmitt svona viðbrögð eins og þau sem stúlkan mætti sem vinna mesta skaðann.
Um bloggið
Mæja McFabulous
Tenglar
Dásemdar fólk
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
það stoðar lítið að vinna eftir göfugri áætlun þegar hugur fylgir ekki hjarta. Þannig er það því miður í alltof mörgum skólum að kennarar og starfsfólk hefur enga trú á slíkri vinnu enda sé einelti einungis til í kollinum á furðulegum krakka sem sækir ,,þetta" sjálft og á svo fjandi leiðinglega mömmu/pabba......
-haft eftir alltof mörgum samkennurum og örðu samstarfsfólki mínum í gegnum árin-
Katrín, 16.1.2009 kl. 13:24
mjög ömurlegt að þetta viðgangist og skólayfirvöld segjast ekkert geta gert.
SM, 16.1.2009 kl. 13:28
Heyr, heyr litla systir. Þú varst nú talsvert yngri en hún er núna þegar þetta gekk allt saman á í þínu lífi og með öllu illfær um að verja þig. það var heldur ekki gaman fyrir stóru systur öllum þessum árum síðar að vita að þetta var allt að gerast í næstu skólabyggingu, á meðan hún grunlaus reyndi að venjast nýjum skóla sjálf.
Elísa Rakel 18.1.2009 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.